Erlent

Búist við sigri Merkel í Þýskalandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Angela Merkel ávarpar samkomu Kristilegra demókrata í Norðurrín-Vestfalíu í Þýskalandi fyrr í mánuðinum. Á veggspjaldi fyrir aftan hana má sjá leiðtoga flokksins í sambandsríkinu, Armin Laschet.
Angela Merkel ávarpar samkomu Kristilegra demókrata í Norðurrín-Vestfalíu í Þýskalandi fyrr í mánuðinum. Á veggspjaldi fyrir aftan hana má sjá leiðtoga flokksins í sambandsríkinu, Armin Laschet. Vísir/AFP
Fyrstu útgönguspár gera ráð fyrir mikilvægum sigri Kristilegra demókrata (CDU), flokks kanslarans Angelu Merkel, í sambandsþingskonsingunum sem haldnar voru í dag í Norðurrín-Vestfalíu í Þýskalandi. The Telegraph greinir frá.

Kristilegir demókratar vinna þar sæti af Sósíaldemókrataflokknum (SPD), helstu keppinautum sínum í þessu fjölmennasta sambandsríki landsins. Fyrstu tölur gera ráð fyrir að 34,5 prósent atkvæða falli Kristilegum demókrötum í hlut en 30,5 prósent fari til Sósíaldemókrata. Þannig bætir flokkur kanslarans við sig 8 prósentustigum frá síðustu kosningum.

Þá er talið að Frjálsir demókratar (FDP) fái 12 prósent atkvæða, þjóðernisflokkurinn Annar kostur fyrir Þýskaland (AFD) 7,5 prósent og Græningjar 6 prósent.

Leiðtogi Sósíaldemókrata, Martin Schulz, var ósáttur við sigur andstæðinga sinna en Norðurrín-Vestfalía hefur löngum verið eitt helsta vígi Sósíaldemókrata í Þýskalandi. Þetta yrðu þriðju sambandsþingskosningarnar í röð sem flokkurinn tapar.

Niðurstöðurnar renna enn frekari stoðum undir yfirvofandi sigur Angelu Merkel í komandi kosningum, sem haldnar verða í september næstkomandi. Merkel tekur því stefnuna á sögulegt fjórða kjörtímabil sem kanslari Þýskalands.

Sambandsþingskosningarnar í Norðurrín-Vestfalíu eru iðulega taldar gefa mjög góða vísbendingu um niðurstöður þýskra þingkosninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×