Erlent

Baráttufundur hinsegin fólks í Singapúr lokaður útlendingum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá kröfufundi Bleika depilsins á Mælendahorninu í Singapúr árið 2014. Fundunum hefur ávallt verið mætt af mikilli andstöðu frá íhaldssömum stjórnmálaöflum landsins.
Frá kröfufundi Bleika depilsins á Mælendahorninu í Singapúr árið 2014. Fundunum hefur ávallt verið mætt af mikilli andstöðu frá íhaldssömum stjórnmálaöflum landsins. Vísir/AFP
Árlegur kröfufundur hinsegin fólks í Singapúr, sem fram fer 1. júlí næstkomandi, verður lokaður öðrum en singapúrskum ríkisborgurum og fólki með varanlegt dvalarleyfi. BBC greinir frá.

Skipuleggjendur samkomunnar tilkynntu um þetta í dag og sögðust harma mjög hvernig ástatt væri. Útlendingum var áður leyft að sækja fjöldafundinn, þó aðeins sem áhorfendur, en singapúrskir ríkisborgarar voru einir um að mega mótmæla. Nú hefur útlendingum alfarið verið úthýst.

Fyrsti kröfufundurinn var haldinn árið 2009 en singapúrsku baráttusamtökin Pink Dot, eða Bleiki depillinn, hafa ætíð haldið utan um viðburðinn. Hann fer fram á Mælendahorninu, Speaker's Corner, eina staðnum í Singapúr þar sem halda má mótmæli án samþykkis frá lögregluyfirvöldum.

Vegna breytinga á lögum í borgríkinu gera singapúrsk yfirvöld nú ekki lengur greinarmun á þeim sem mæta sem áhorfendur og þeim sem taka þátt í mótmælunum. Þannig þurfa skipuleggjendur framvegis að skoða skilríki þeirra sem mæta á kröfufundinn.

Þessum breytingum er komið á í kjölfar yfirlýstrar stefnu stjórnvalda að takmarka áhrif utanaðkomandi aðila á innanríkismál landsins. Þá stendur Singapúr nokkuð aftarlega í réttindamálum hinsegin fólks en kynlíf samkynja para er ólöglegt í Singapúr. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×