Erlent

Móðir lamdi son sinn fyrir að gefa sér ekki kort á mæðradaginn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í Spartanburg í norðurhluta Suður-Karólínufylkis.
Atvikið átti sér stað í Spartanburg í norðurhluta Suður-Karólínufylkis. Google Maps
Kona í Suður-Karólínufylki í Bandaríkjunum hefur verið handtekin fyrir að lemja ungan son sinn eftir að hann gaf ömmu sinni, en ekki móður sinni, mæðradagskort. AP-fréttaveitan greinir frá.

Konan, sem heitir Shontrell Murphy, hefur verið ákærð fyrir grimmilegt athæfi í garð barns eftir að hún sló son sinn í höfuðið á fimmtudag. Lögregla hefur ekki gefið upp aldur drengsins. Gert var að sárum hans á sjúkrahúsi og hann síðar útskrifaður.

Samkvæmt skýrslu frá lögreglu sagði systir drengsins að móðir sín hefði lamið drenginn fast vegna þess að hann gaf ömmu sinni kort en ekki móðurinni. Hin ákærða reif svo kort sonarins til ömmu sinnar í tætlur.

Mæðradagurinn er í dag en hann er haldinn hátíðlegur annan sunnudag í maímánuði ár hvert í flestum vestrænum ríkjum. Murphy hefur nú verið sleppt úr varðhaldi. Þá er ekki ljóst hvort hún hafi ráðið lögfræðing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×