Erlent

Ástarþríhyrningurinn og glæpurinn sem Indverjar gleyma aldrei

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Málið vakti mikla athygli á Indlandi á sínum tíma en hér eru aðalpersónurnar á forsíðu eins stærsta dagblaðs Indlands, Nanavati-hjónin og Prem Ahuja.
Málið vakti mikla athygli á Indlandi á sínum tíma en hér eru aðalpersónurnar á forsíðu eins stærsta dagblaðs Indlands, Nanavati-hjónin og Prem Ahuja.
Það var mollulegur dagur í einu fínasta hverfi Bombay, nú Mumbai, á Indlandi þann 27. apríl 1959 þegar Kawas Maneckshaw Nanavati fór inn í svefnherbergi hjá Prem Ahuja og skaut hann til bana. Morðið skók indverskt samfélag og réttarhöldin voru söguleg fyrir þær sakir að þau voru þau seinustu á Indlandi þar sem kviðdómur kom við sögu.

Fjallað er um morðið á vef BBC í dag. Nanavati var virtur flotaforingi í indverska hernum og giftur enskri konu, Sylviu Nanavati. Ahuja var viðskiptajöfur og elskhugi Sylviu og lét lífið vegna þess.

Kviðdómur sýknaði Nanavati

Nanavati hafði tekið byssuna sem hann skaut Ahuja með úr skipi sínu. Þegar hann hafði myrt elskhuga konu sinnar fór flotaforinginn beint á lögreglustöðina og játaði morðið. Hann var samstundis handtekinn en þann 23. september 1959 komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að Nanavati væri saklaus.

Almenningur fylgdist vel með réttarhöldunum og naut flotaforinginn mikillar hylli. Þannig féllu konur í yfirlið við það eitt að sjá Nanavati þegar hann mætti í réttinn í fullum skrúða og í fylgd nánast heillar herdeildar.

 

Stuðningsmenn Nanavati hrópuðu einnig ókvæðisorðum að vitnum saksóknarans sem ákærði og sótti flotaforingjann til saka. Fjöldi fólks kom saman á götum Bombay meðan á réttarhöldunum stóð og þurfti stundum að kalla út óeirðalögregluna.

Nanavati-hjónin.
Öfugsnúin niðurstaða þar sem öll sönnunargögn bentu til sektar Nanavati

Bæði verjendur Nanavati og fjölmiðlar höfðu mikil áhrif á það hvaða skoðun almenningur hafði á málinu. Þannig var flotaforinginn málaður upp sem mikill föðurlandsvinur enda í hernum, mánuði í senn úti á sjó þar sem hann skildi konuna sína eftir heima „einmana og berskjaldaða.“

Verjendur Nanavati sögðu síðan að viðskiptajöfurinn Ahuja hefði hvorki þjóðernis- né siðferðiskennd. Þannig væri það ekki aðeins siðlaust að eiga í ástarsambandi við eiginkonu flotaforingja heldur væri hann nánast að ráðast á land og þjóð með þeim gjörðum sínum.

Kviðdómurinn gaf enga skýringu á því hvers vegna Nanavati var fundinn saklaus. Dómarinn í málinu sagði niðurstöðu kviðdómsins vera öfugsnúna þar sem öll sönnunargögn bentu til sektar Nanavati.

Hæstiréttur Bombay komst svo að þeirri niðurstöðu í mars 1960 að Nanavati væri sekur um morðið á Ahuja og dæmdi hann í ævilangt fangelsi. Aðeins fjórum klukkutímum síðar frestaði ríkisstjórinn í Bombay refsingu Nanavati eða allt þar til að Hæstiréttur Indlands hefði tekið málið hans fyrir.

Náðaður eftir aðeins þrjú ár í fangelsi

Í september 1960 úrskurðaði Hæstiréttur svo að ríkisstjórinn hefði farið út fyrir valdsvið sitt með því að fresta refsingunni og tók hún þá gildi. Nanavati hóf þá afplánun dómsins.

Þremur árum síðar var Nanavati svo veitt reynslulausn af heilsufarsástæðum og í mars 1964 var hann svo nokkuð óvænt náðaður af ríkisstjóranum í Maharashtra. Fjórum árum síðar flutti flotaforinginn fyrrverandi svo ásamt Sylviu eiginkonu sinni og þremur börnum til Kanada þar sem hann lést árið 2003.

Morðið á Ahuja vakti mikla athygli á sínum tíma og heldur í raun áfram að vekja athygli þar sem um það hafa verið skrifaðar fjölmargar bækur, ritgerðir auk þess sem fjöldi Bollywood-mynda hafa verið gerðar um málið.

Nánar má lesa um það á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×