Íslenski boltinn

Formaður dómaranefndar: Almarr mun fara í bann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Almarr slapp með skrekkinn í gær en mun samt fara í leikbann.
Almarr slapp með skrekkinn í gær en mun samt fara í leikbann. vísir/eyþór
Ansi sérstök mistök áttu sér stað á Akureyrarvelli í gær þar sem dómari leiks KA og Fjölnis gleymdi að gefa leikmanni KA rautt spjald er hann fékk sitt annað gula spjald í leiknum.

Almarr Ormarsson kláraði leikinn fyrir KA þó svo Guðmundur Ársæll Guðmundsson hefði gefið honum sitt annað gula spjald undir lok leiksins. Dómarinn fattaði einfaldlega ekki að þetta væri annað gula spjald leikmannsins.

„Þetta eru bara mannleg mistök hjá dómarateyminu,“ segir Kristinn Jakobsson, formaður dómaranefndar KSÍ.

„Aðstoðardómararnir voru ekki vissir um hver hefði fengið áminninguna því það voru fleiri menn í kringum Almar. Dómarinn var ekki nógu afgerandi er hann var að gefa spjaldið. Svo kveikti Guðmundur ekki á því að hann hefði verið að gefa leikmanni sitt annað gula spjald.“

Nú velta menn eðlilega því fyrir sér hvert framhaldið verði. Fer leikmaðurinn í bann þó svo hann hafi ekki formlega fengið rautt spjald í leiknum?

„Það er alveg ljóst að Almarr fékk tvær áminningar í leiknum. Skýrsla mun koma frá dómara inn til aganefndar þannig. Ég tel að þetta fari í eðlilegan farveg og að Almarr fari í eins leiks bann.“

Kristinn segir að dómaranefndin muni fara vel yfir þessa atburðarrás og passa upp á að menn læri af þessu.

„Þetta er auðvitað eitthvað sem á ekki að koma fyrir. Dómarinn er ekki yfir gagnrýni hafinn og þegar menn gera svona áberandi mistök þá er það ekki gott. Við verðum að vinna úr þessu með faglegum hætti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×