Erlent

Mexíkóskur verðlaunablaðamaður skotinn til bana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi morðsins í gær.
Frá vettvangi morðsins í gær. vísir/epa
Mexíkóskur blaðamaður, Javier Valdez, sem unnið hefur til fjölda verðlauna fyrir skrif sín um eiturlyfjabaróna landsins, var skotinn til bana í gær í Sinaloa-héraði í norðvesturhluta Mexíkó.

Ekki er vitað hverjir voru að verki byssumenn létu kúlu rigna yfir bíl hans í borginni í Culiacan en Valdez starfaði þar. Hann var fimmtugur að aldri og er fimmti blaðamaðurinn sem er myrtur í Mexíkó það sem af er þessu ári.

„Að vera blaðamaður er eins og að vera á svörtum lista. Það skiptir ekki máli hvað þú ert í mörgum skotheldum vestum eða hversu marga lífverði þú ert með. Glæpagengin ákveða einfaldlega daginn sem þau ætla að drepa þig,“ sagði Valdez eitt sinn.

 

Ferill hans í blaðamennsku spannaði hátt í þrjá áratugi. Hann skrifaði mikið um Sinaloa-eiturlyfjahringinn sem talið er að smygli fjórðungi allra eiturlyfja sem berast frá Mexíkó til Bandaríkjanna.

Stofnandi þeirrar glæpaklíku er Joaquin Guzman, betur þekktur sem „El Chapo“ eða „sá stutti“. Hann var handsamaður árið 2014 og bíður nú dóms í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×