Innlent

Ók á um 200 kílómetra hraða á Reykjanesbrautinni

Atli Ísleifsson skrifar
Mannsins bíður ákæra fyrir háskaaksturinn.
Mannsins bíður ákæra fyrir háskaaksturinn. Vísir/Eyþór
Lögregla á Suðurnesjum stöðvaði um helgina bíl sem ekið var eftir Reykjanesbraut á 196 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ökumaðurinn hafi verið skiptum réttindum ótímabundið en um var að ræða tæplega fimmtugan karlmann. Hans bíður ákæra fyrir háskaaksturinn.

„Fáeinir ökumenn til viðbótar voru kærðir fyrir of hraðan akstur, þar á meðal 17 ára piltur sem mældist aka á 159 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund. Auk sektar fyrir brotið og refsipunkta í ökuferilsskrá gerði lögregla barnaverndarnefnd viðvart,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglan á Suðurnesjum handtók einnig nokkra ökumenn um helgina vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. „Tveir þeirra reyndust aka sviptir ökuréttindum og sá þriðji hafði aldrei öðlast slík réttindi. Einn þessara þriggja var með fíkniefni í fórum sínum þegar hann var handtekinn. Þá var einn ökumannanna, grunaður um ölvunarakstur,  17 ára og var því brot hans tilkynnt barnaverndarnefnd.“

Rotaðist þegar hann féll af reiðhjóli

Í tilkynningu segir jafnframt að karlmaður hafi rotast þegar hann féll af reiðhjóli sínu á Krísuvíkurvegi um helgina. „Hann hjólaði á grjót með þeim afleiðingum að hann skall í malbikið. Hann hlaut m.a. meiðsl í andliti og var fluttur á Landspítala til aðhlynningar.

Þá meiddist ökumaður þegar bifreið hans fór utan í vegrið á Reykjanesbraut og endaði utan vegar. Hann fann til verkja og var fluttur til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×