Erlent

Bandarískur unglingur lést af völdum mikillar koffínneyslu

Atli Ísleifsson skrifar
Davis Allen Cripe.
Davis Allen Cripe.
Bandarískur táningur í Suður-Karólínu lést eftir að hafa neytt fjölda koffíndrykkja á of skömmum tíma. Þetta kemur fram í niðurstöðu dánardómstjóra í ríkinu.

Hinn sextán ára Davis Allen Cripe hné niður í skóla sínum eftir að hafa á tveggja klukkustunda tímabili neytt kaffi lattes frá McDonald’s, stórs Mountain Dew gosdrykkjar og orkudrykkjar.

Er það mat dánardómstjórans Gary Watts að Cripe hafi látið lífið af völdum hjartatruflana sem mátti rekja til koffínneyslu piltsins. Ekki var vitað til að hann hafi glímt við hjartasjúkdóma. Drengurinn hafi verið níutíu kíló að þyngd en hann myndi ekki flokkast sem maður í mikilli ofþyngd.

Í frétt BBC er haft eftir Watts að hann segir ekki að um ofskammt koffíns hafi verið að ræða, heldur hafi mikil neysla á of skömmum tíma leitt til hjartatruflananna sem ollu dauða piltsins.

Ólíklegt er að dauði Cripe hefði verið rakinn til koffínneyslunnar ef ekki hefði verið fyrir að samnemendur sem greindu sjúkraliði frá neyslu hans á drykkjunum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×