Skoðun
Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Leynir MAST upplýsingum um lúsasmit?

Jón Helgi Björnsson skrifar

Í desember síðastliðnum óskaði Landssamband veiðifélaga (LV) eftir því við Matvælastofnun (MAST) að fá afrit af öllum eftirlitsskýrslum frá sjókvíaeldi sem stofnunin hefði undir höndum. Beiðninni var hafnað á grundvelli þess að hún væri of víðtæk. Auðvitað var ástæða beiðninnar að LV hefur ekki fullt traust á þeim takmörkuðu upplýsingum sem MAST veitir um umrædda starfsemi. Hins vegar eru hagsmunir LV af því að fá afrit af upplýsingum miklir þar sem fjallað er um áform fyrirtækja að auka sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi upp í 200.000 tonn í öllum fjörðum þar sem slíkt eldi er heimilt.

Í kjölfar þessarar neitunar á afhendingu gagna óskaði LV eftir upplýsingum um umfang lúsasmits frá 1. september 2016 til 15. febrúar 2017. Áður hafði komið fram í fjölmiðlum, m.a. hjá starfsmanni MAST, að óvenju mikið væri um lúsasýkingar í Arnarfirði. Í svari MAST, sem enn þá skilaði engum gögnum frekar en við fyrri fyrirspurn, kom eftirfarandi fram orðrétt: „Engin kvöð er á fiskeldisfyrirtækjum um að tilkynna nákvæmar tölur um lúsasmit, hvort sem er af völdum fiskilúsar eða laxalúsar og því hefur Matvælastofnun engar skrár eða skýrslur um lúsasmit á Austfjörðum eða Vestfjörðum.“

Þetta svar MAST er athyglisvert í ljósi þess að meðfylgjandi fyrra svari stofnunarinnar við erindi LV var leiðbeiningablað um lúsatalningu og lúsasmit í sjókvíum útgefið af Matvælastofnun sjálfri. Athygli vekur síðasta setning í þeim leiðbeiningum sem hljóðar svo;
„Talningarniðurstöður skal senda til MAST sem heldur utan um upplýsingarnar.“

Um tíðni talningar segir í eyðublaðinu: „Einu sinni í mánuði á tímabilinu 1. apríl til 1. júní, að því gefnu að hitastig sjávar sé yfir 4°C. Frá 1. júní til 1. október skal telja 2. hverja viku, og svo aftur mánaðarlega þar til veður og hiti hindrar.“
Síðan er gefið upp netfang tiltekins starfsmanns MAST.

Í þessu ljósi verður sú spurning áleitin, hvort MAST hefur í rauninni upplýsingar undir höndum en kýs að láta þær ekki í té. Hinn möguleikinn er að fyrirtækin hreinlega hundsi fyrirmæli MAST og upplýsi ekki um umfang lúsasmits í stöðvum sínum. Væri það enn einn áfellisdómur yfir eftirliti stofnunarinnar. Fyrir Landssamband veiðifélaga skiptir það ekki öllu máli. Aðalatriðið er að ekki fæst aðgangur að haldbærum upplýsingum um lúsasmit í íslensku fiskeldi. Staða LV til að gefa umsagnir um áform um allt að 200 þúsund tonna framleiðslu á norskum eldislaxi varðandi áhrif lúsasmits er því engin. Opinberir aðilar gefa ekki kost á upplýsingum, sem þeir þó augljóslega afla, og eiga að liggja til grundvallar mati á umhverfisáhrifum og útgáfu eldisleyfa. Við svo brotakennda stjórnsýslu verður ekki unað lengur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Ég kom en

Hjördís Björg Kristinsdóttir skrifar

Skoðun

Áfram jafnrétti!

Heiða Björg Hilmisdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Ragna Sigurðardóttir og Ellen Calmon skrifar

Sjá meira