Sport

Conor náði saman við UFC | Nú yfir til Mayweather

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor tekur milljarðalabbið sitt. Hann verður milljarðamæringur ef af bardaganum verður við Mayweather.
Conor tekur milljarðalabbið sitt. Hann verður milljarðamæringur ef af bardaganum verður við Mayweather. vísir/getty
Það er búið að stíga risaskref í átt að bardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather því Conor hefur náð samningum við UFC út af bardaganum.

Það var staðfest á TNT í nótt þar sem Shaquille O'Neal var með Dana White, forseta UFC, í viðtali eftir leik Boston og Cleveland en White er harður stuðningsmaður Celtics.

„Það er búið að ganga frá öllum málum með Conor. Nú fer ég að tala við Mayweather og fólkið hans. Ef við náum saman við þá er okkur ekkert að vanbúnaði að láta verða af þessu,“ sagði White.

Margir segja að erfiðari hluti samninganna sé nú frágenginn því Conor og UFC þurfa að skipta með sér peningahluta Conors. Mayweather er aftur á móti engum háður.

Margir hafa spáð í hvort það verði einhver sérstök útgáfa af hnefaleikabardaga á milli þeirra. Hvort hanskarnir verði til að mynda minni til að jafna hlut kappanna en Conor er auðvitað MMA-bardagamaður en ekki hnefaleikamaður.

„Þetta verða bara hefðbundnir hnefaleikar,“ sagði White.

Sjálfur sagðist Conor vera glaður með að hafa skrifað undir þennan sögulega samning.

Það gæti þvi orðið af þessum bardaga í ár eftir allt saman.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×