Innlent

Fékk þyngri dóm í Hæstarétti fyrir að nauðga sautján ára stúlku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stúlkan var sautján ára þegar brotið átti sér stað.
Stúlkan var sautján ára þegar brotið átti sér stað. Vísir/Getty
Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir Marteini Jóhannssyni fyrir nauðgun í september árið 2014. Fórnarlambið var sautján ára stúlka á þeim tíma sem brotið var framið en henni var nauðgað í íbúð í Reykjavík. Hinn dæmdi var þrítugur á þeim tíma.

Marteinn fékk tveggja og hálfs árs dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í nóvember síðastliðnum og áfrýjaði verjandi Marteins, Jón Egilsson, málinu til Hæstaréttar og krafðist þess að dómurinn yrði mildaður. Ríkissaksóknari fór fram á þyngingu dómsins.

Var það niðurstaða Hæstaréttar að þyngja dóminn í héraði vegna þess að brotið væri gegn barni yngra en átján ára og sömuleiðis þar sem ákærði rauf skilorð með broti sínu. Þá staðfesti Hæstiréttur eins milljóna króna miskabætur til stúlkunnar úr hendi hins dæma.

Hótaði að raka hárið af stúlkunni

Var Marteinn sakfelldur fyrir að hafa kynferðismök gegn vilja stúlkunnar með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung en Marteinn þvingaði hana til að hafa við sig munnmök að því er segir í dómnum.

Hótaði hann því að raka af henni hárið ef hún veitti honum ekki munnmök og hélt ákærði um höfuð hennar og ýtti henni að getnaðarlim sínum.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að umrætt kvöld hafi stúlkan verið að aka bílaleigubíl með vinum sínum þegar Marteinn hringdi í hana og skipaði henni að skila bílnum. Fór hún þangað, ræddi við hann og skilaði bíllyklunum.

Vinir stúlkunnar komu þá inn í íbúðina. Réðist þá Marteinn á annan þeirra. Eftir slagsmálin kenndi Marteinn stúlkunni um að hafa komið með vini sína inn í íbúðina. Fór hann inn á baðherbergi, sótti rakvél og hótaði stúlkunni.

„Þá hefði ákærði sagt við hana að ef hún vildi að hann yrði glaður yrði hún að sjúga hann. Hún hefði neitað því en hann hefði þá haldið uppi rakvélinni og sagst myndu raka af henni hárið ef hún gerði það ekki,“ líkt og segir í dómi héraðsdóms.

Neitaði sök en þótti ekki samkvæmur sjálfum sér

Hún kvaðst margoft hafa gefið honum til kynna að hún vildi ekki þessi samskipti og að Marteinn hefði haldið höfði hennar þannig að hún hefði ekki getað losað það. Hún hefði hætt þegar hann losaði takið.

Marteinn neitaði sök og taldi sig hafa haft kynferðismök við stúlkuna með samþykki hennar og að hennar frumkvæði. Marteinn og stúlkan voru ein til frásagnar af því sem átti sér stað.

Við dóm sinn leit héraðsdómur til þess að framburður stúlkunnar hafi verið á einn veg og hafi jafnframt fengið stuðning vitna. Þá hafi Marteinn ekki verð samkvæmur sjálfum sér í lýsingum á atvikum.

„Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn brotaþola til grundvallar í málinu, en hafna framburði ákærða sem ótrúverðugum. Þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi þvingað brotaþola til kynferðismaka með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, eins og lýst er í ákæru,“ segir í dómi héraðsdóms.

Marteinn á sér nokkra brotasögu en í dómnum segir að „brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola mikilli andlegri vanlíðan, ekki síst í ljósi ungs aldurs hennar. Af framburði stúlkunnar fyrir dóminum þykir jafnframt verða ráðið að verknaðurinn hafi fengið mjög á hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×