Innlent

Krafðist gæsluvarðhalds yfir 17 ára hælisleitanda sem er andlega veikur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. vísir/gva
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að 17 ára hælisleitandi sem kom hingað til lands þann 27. desember síðastliðinn skuli ekki sæta gæsluvarðhaldi en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði krafist gæsluvarðhalds yfir piltinum.

Lögreglan taldi nauðsynlegt að pilturinn færi í gæsluvarðhald þar sem hann hafði ekki virt ákvörðun lögreglu að halda sig á dvalarstað en ákvörðunin var tekin á grundvelli útlendingalaga. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að pilturinn hafi komið hingað til lands á fölsku vegabréfi ásamt öðrum karlmanni og stúlku.

Þremenningarnir voru handteknir við komuna hingað til lands og hjá lögreglu gaf pilturinn ekki upp fæðingardag sinn heldur kvaðst 17 ára. Hann gat ekki sagt nákvæmlega til um hversu lengi hann hefði verið á flótta en taldi það vera um eitt og hálft ár.

Skömmu eftir komuna til landsins sótti pilturinn um hæli hér en áður hafði hann sótt um hæli í öðru Evrópuríki en ekki kemur fram í hvaða landi það var. Þó kemur fram að norskur barnalæknir hafi gert aldursgreiningu á piltinum og segir í greinargerð lögreglu að norsk stjórnvöld telji hann vera tvítugan. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að barnalæknirinn geti ekki útilokað að pilturinn sé yngri en 18 ára en útilokar þó að hann sé yngri en 16 ára.

Orð piltsins fyrir því hversu gamall hann er eru því lögð til grundvallar í úrskurði héraðsdóms og er hann því talinn vera 17 ára. Þá segir í niðurstöðu dómsins:

„Samkvæmt 5. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, er aðeins heimilt að úrskurða umsækjanda um alþjóðlega vernd, sem er yngri en 18 ára en eldri en 15 ára, í gæsluvarðhald þegar hann hefur sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum. Fyrir liggur að kærði, sem ósannað er að sé orðinn 18 ára, hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.“

Að mati héraðsdóms verður ekki ráðið af gögnum málsins og greinargerð lögreglustjóra að slík ógn stafi af piltinum sem áskilin er í ákvæðinu.

„Þá er í ákvæðinu áskilið að úrræðinu skuli því aðeins beitt að önnur vægari úrræði samkvæmt lögum um útlendinga eða barnaverndarlögum komi ekki til greina eða nái ekki því markmiði sem að sé stefnt. Auk þess sem taka ber tillit til aldurs umsækjanda og þarfa hans hverju sinni, en fyrir liggur að kærði á við andleg veikindi að stríða.

Lögreglustjóri hefur hvorki með gögnum eða á annan hátt sýnt fram á að slík úrræði komi ekki til greina í tilviki kærða. Þá liggja ekki fyrir sannfærandi upplýsingar um að úrræði á grundvelli 114. gr. laga nr. 80/2016 hafi verið reynd til hlítar, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að skylda útlending til að sinna reglulegri tilkynningarskyldu um veru sína hér á landi eða dveljast á ákveðnum stað að skilyrðum greinarinnar uppfylltum. Sú ráðstöfun lögreglu að skylda kærða til að dveljast innan dyra að [...] í Reykjavík, án möguleika á útiveru, brýtur berlega gegn kröfum um meðalhóf sem gæta ber að við slíka ákvörðun,“ segir jafnframt í úrskurði héraðsdóms sem lesa má í heild hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×