Innlent

Gátu ekki staðfest grun um mansal

Snærós Sindradóttir skrifar
Snorri Birgisson.
Snorri Birgisson. Vísir/Anton Brink
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tókst ekki að sannreyna sögu tveggja manna frá Rúmeníu, sem komu hingað til lands í byrjun apríl. Mennirnir gáfu sig fram við Rauða krossinn strax við komuna til landsins og greindu frá því að þeir væru seldir hingað vinnumansali og hugsanlega í kynlífsþrælkun. Mennirnir voru báðir á þrítugsaldri.

Fréttablaðið greindi frá málinu fljótlega eftir komu mannanna til landsins en þá kom fram að þeir hefðu sagst hafa orðið fyrir grófu ofbeldi og verið sendir hingað þar sem hefði átt að gera þá enn frekar út. Þeir hefðu með nokkrum naumindum sloppið frá einstaklingnum sem átti að sækja þá við komuna til landsins en kunnu ekki skil á viðkomandi og gátu ekki gefið upp neinar frekari upplýsingar um hvernig mætti hafa samband við hann.



Snorri Birgisson, sem fer fyrir mansalsteymi lögreglunnar, segir að lögreglunni hafi ekki tekist að sannreyna neitt af því sem mennirnir sögðu. Lögreglan hafi í raun lent í blindgötu með málið og ekki verði aðhafst frekar í því.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst fóru mennirnir af fúsum og frjálsum vilja af landi brott fyrir skömmu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×