Íslenski boltinn

Svona fagna menn sínum fyrsta sigri í Frostaskjóli í tíu ár | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/@HarHaralds
Víkingar unnu einn óvæntasta sigur fyrstu umferðar Pepsi-deildar karla þegar þeir sóttu þrjú stig á KR-völlinn í kvöld.

KR-liðið komst yfir strax á níundu mínútu og var yfir í 52 mínútur eða allt þar til að  Dofri Snorrason jafnaði á 61. mínútu.

Hollendingurinn Geoffrey Castillion skoraði síðan sigurmarkið á 73. mínútu í sínum fyrsta leik í Pepsi-deildinni.

Víkingar höfðu ekki unnið í úrvalsdeildarleik í Frostaskjólinu í tæpan áratug eða síðan að liðið vann 2-1 sigur 28.maí 2007 en Magnús Gylfason var þá þjálfari Víkingsliðsins.

Stefán Kári Sveinbjörnsson og Sinisa Kekic skoruðu þá mörk Víkingsliðsins og komu liðinu í 2-0.

Síðan þá höfðu Víkingar aðeins náð í eitt stig af tólf mögulegum í fjórum leikjum sínum á KR-vellinum og það kom í markalausu jafntefli í fyrstu umferðinni fyrir ári síðan.

Það var því ekkert skrýtið að Víkingar hafi fagnað sigrinum vel í klefanum eftir leik.  Fyrirliðar, forráðamenn og þjálfara spáðu Víkingsliðinu áttunda sæti en liðið sótti þrjú stig á heimavöll KR sem var spáð öðru sætinu.

Myndband með fögnuðinum setti Haraldur Haraldsson inn á Twitter-síðu sína í kvöld og má sjá strákana syngja í gestaklefanum á KR-vellinum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×