Íslenski boltinn

Blikar fengu að heyra það frá Óskari Hrafni: „Þeir bæta sig ekki neitt“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Breiðablik fékk skell á móti nýliðum KA, 3-1, í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í gærkvöldi en Blikarnir voru lakari aðilinn nánast allan leikinn og áttu ekkert skilið úr leiknum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, sérfræðingur Pepsi-markanna, hafði ekkert gott um Blikana að segja eftir þessa daufu frammistöðu og lét þá heyra það í fyrsta markaþætti sumarsins sem var í opinni dagskrá Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

„Blikaliðið virkaði á mig, ef undan eru skildar síðustu tíu mínúturnar, nákvæmlega eins og það hefur virkað á mig í allan vetur og í síðustu umferðunum í fyrra. Það er andlaust, dauft og menn virðast hafa ekkert svakalega gaman að því sem menn eru að gera,“ sagði Óskar Hrafn og Logi Ólafsson bætti við:

„Grundvöllurinn að því að vinna leiki er að gera það sem KA gerir í þessum leik. Þeir fara af alvöru inn í leikinn og í tæklingarnar og vilja vinna þær. Það er eins og Kópavogsmenn forðist það eins og heitan eldinn að lenda í návígum og sýna af sér einhverja hörku.“

Það lifnaði aðeins yfir leik Blikanna þegar Höskuldur Gunnlaugsson kom inn á sem varamaður en hann náði þó ekki að bjarga Kópavogsliðinu.

„Höskuldur kom mjög sterkur inn. Ég get ekki fundið rökrétta skýringu á því að hafa Höskuld Gunnlaugsson á bekknum og Aron Bjarnason í byrjunarliðinu. Aron var nánast ekki þáttakandi í þessum leik,“ sagði Óskar Hrafn.

„Blikar þurfa aðeins að fara að hugsa sinn gang. Ár eftir ár eftir ár mæta sömu mennirnir til leiks; Oliver Sigurjónsson, Andri Rafn Yeoman og Arnþór Ari núna á sínu þriðja tímabili og þeir eru alveg eins. Þeir eru ekki orðnir betri. Þeir bæta sig ekki neitt.“

„Af hverju eru menn sem eru komnir með miklu meiri reynslu en þeir voru með fyrir þremur árum orðnir betri? Af hverju eru þeir að gera sömu mistökin? Ég held að Blikarnir þurfi aðeins að skoða hvers vegna leikmennirnir þeirra eru ekki að bæta sig,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×