Íslenski boltinn

KR er lélegasta lið fyrstu umferðar undanfarin fjögur ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gærkvöldið var erfitt fyrir KR-inga.
Gærkvöldið var erfitt fyrir KR-inga. Vísir/Stefán
Uppskera KR-inga í fyrstu umferð Íslandsmótsins undanfarin fjögur sumur er svo léleg að öll önnur lið deildarinnar hafa gert betur en Vesturbæjarliðið í opnunarumferð Íslandsmótsins frá 2014.

Alls hafa átta félög verið með á síðustu fjórum tímabilum í Pepsi-deildinni og hin sjö liðin hafa öll fengið fleiri stig en KR í fyrsta leik Íslandsmótsins.

KR-ingar hafa byrjað á heimavelli undanfarin fjögur tímabil en það hefur ekki hjálpað liðinu mikið í stigasöfnuninni.

KR hefur aðeins fengið eitt stig í fyrstu umferð undanfarin fjögur ár af þeim tólf sem hafa verið í boði. Þetta gerir aðeins átta prósent stiga í boði og markatala KR-liðsins í þessum fjórum leikjum er -4 (3-7).

Þrjú félög, FH, Stjarnan og Fjölnir, hafa fengið níu stigum meira en KR-liðið þessi fjögur ár. Stjarnan og Fjölnir töpuðu reyndar stigum í fyrstu umferðinni í ár en FH-liðið vann sinn fyrsta leik þriðja árið í röð.

KR komst í 1-0 strax á 9. mínútu leiksins og var yfir í rúmar 50 mínútur. Víkingar skoruðu hins vegar tvö mörk eftir klukkutíma leik og tryggðu sér sigurinn.

Fyrir tveimur árum var KR einnig 1-0 yfir í hálfleik í fyrstu umferðinni en varð að sætta sig við 3-1 tap gegn FH eftir að Hafnarfjarðarliðið skoraði þrjú mörk á síðustu 18 mínútum leiksins.

KR vann síðast fyrsta leik sinn á Íslandsmóti sumarið 2013 þegar liðið vann Stjörnuna 2-1 á KR-vellinum en það sumar vann KR einmitt síðasta Íslandsmeistaratitil félagsins.

Stig félaga í 1. umferð frá 2014 til 2017

(Lið sem hafa verið með öll fjögur tímabilin)

FH 10 stig

Stjarnan 10 stig

Fjölnir 10 stig

Víkingur R. 7 stig

Valur 6 stig

ÍBv 5 stig

Breiðablik 2 stig

KR 1 stig

Leikir KR í 1. umferð frá 2014 til 2017

2014: 1-2 tap fyrir Val

2015: 1-3 tap fyrir FH

2016: 0-0 jafntefli við Víking R.

2017: 1-2 tap fyrir Víkingi R.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×