Körfubolti

Toronto lítil fyrirstaða fyrir James og félaga | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James var með 39 stig.
James var með 39 stig. vísir/getty
Cleveland Cavaliers er enn ósigrað í úrslitakeppninni NBA-deildarinnar í körfubolta en í nótt báru meistararnir sigurorð af Toronto Raptors, 125-103, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar. Staðan í einvíginu er 2-0, Cleveland í vil.

LeBron James skoraði 39 stig úr aðeins 14 skotum fyrir Cleveland. James var duglegur að koma sér á vítalínuna í leiknum í nótt en hann nýtti 15 af 21 víti sínu.

Kyrie Irving skoraði 22 stig og gaf 11 stoðsendingar og Channing Frye kom með 18 stig af bekknum.

Jonas Valaciunas var stigahæstur í liði Toronto með 23 stig. Miklu munaði um að stjörnuleikmaðurinn DeMar DeRozan fann sig engan veginn og skoraði aðeins fimm stig.

San Antonio Spurs jafnaði metin í einvíginu við Houston Rockets í undanúrslitum Vesturdeildarinnar með öruggum sigri, 121-96, í öðrum leik liðanna í nótt.

Kawhi Leonard átti frábæran leik fyrir San Antonio; skoraði 34 stig, tók sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar. Tony Parker kom næstur með 18 stig.

Ryan Anderson var stigahæstur í liði Houston með 18 stig. James Harden var með 13 stig, sjö fráköst og 10 stoðsendingar en hitti aðeins úr þremur af 17 skotum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×