Körfubolti

LeBron kominn upp fyrir Abdul-Jabbar og nú er bara Jordan eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James komst í nótt upp í annað sætið á listanum yfir þá sem hafa skorað flest stig í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Þegar LeBron James skoraði sitt 25. stig í sigrinum á Toronto Raptors í nótt þá komst hann upp fyrir Kareem Abdul-Jabbar sem skoraði á sínum tíma 5762 stig í úrslitakeppni NBA.

James endaði með 39 stig í leiknum og hefur þar með skorað 5777 stig í úrslitakeppni.

Nú er bara einn leikmaður sem hefur gert betur í sögu úrslitakeppni NBA. Michael Jordan skoraði á sínum tíma 5987 stig fyrir Chicago Bulls í úrslitakeppninni. ESPN segir frá.

LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers hafa unnið sex fyrstu leiki sína í úrslitakeppninni í ár og vantar nú aðeins tvo sigra í viðbót til að komast í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar.



James þarf 210 stig í viðbót til að ná Jordan. LeBron hefur skorað 205 stig í fyrstu sex leikjum úrslitakeppninnar í ár eða 34,2 stig að meðaltali.

Það er mjög líklegt að Cleveland Cavaliers fari alla leið í lokaúrslit úrslitakeppninnar en það myndi þýða að minnsta kosti tíu leiki í viðbót hjá James.

James ætti því að ná Michael Jordan á þessum merkilega lista seinna í þessari úrslitakeppni.

James hefur verið í frábæru formi í þessum sex fyrstu leikjum Cleveland-liðsins því auk þess að skora 34,2 stig að meðaltali í leik þá er hann með 9,8 fráköst, 8,0 stoðsendingar, 2,6 stolna bolta og 1,8 varin skot í leik. Hann hefur hækkað allt nema stoðsendingarnar frá því í deildarkeppninni.

LeBron James and Michael Jordan.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×