Erlent

Macron eykur fylgi sitt dagana fyrir kosningar

Atli Ísleifsson skrifar
Emmanuel Macron þykir heiðarlegri frambjóðandinn af þeim tveimur – 57 prósent segja Macron, en 33 prósent Le Pen.
Emmanuel Macron þykir heiðarlegri frambjóðandinn af þeim tveimur – 57 prósent segja Macron, en 33 prósent Le Pen. Vísir/AFP
Forskot miðjumannsins Emmanuel Macron á Marine Le Pen hefur aukist á síðustu dögum kosningabaráttunnar samkvæmt nýjustu könnun Elabe.

Skoðanakönnunin var gerð eftir sjónvarpskappræður frambjóðendanna á miðvikudaginn. Kannanir bentu til að meirihluti áhorfenda hafi talið Macron standa sig betur en Le Pen.

Í nýrri könnun Elabe mælist Macron með 62 prósent fylgi en Le Pen 38 prósent.

Í frétt BMFTV segjast 53 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Macron einungis ætla að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen verði kjörin næsti forseti Frakklands á sunnudaginn. Samsvarandi hlutfall fyrir væntanlega kjósendur Le Pen – það er þeir sem segjast ætla að kjósa Le Pen til að koma í veg fyrir kjör Macron – er 33 prósent.

Segir BMFTV að því megi segja að einungis 54 prósent kjósenda komi til með að styðja sinn frambjóðenda á sunnudaginn, en 46 prósent kjósenda munu kjósa ákveðinn frambjóðenda frekar til að kjósa gegn hinum frambjóðendanum.

Macron talinn heiðarlegri

Elabe spurði einnig um hvor frambjóðendanna hafi flesta nauðsynlega eiginleika til að gegna embætti forseta lýðveldisins þar sem 61 prósent aðspurðra sögðu Macron, en einungis 30 prósent Le Pen.

Macron þykir einnig heiðarlegri frambjóðandinn af þeim tveimur – 57 prósent segja Macron, en 33 prósent Le Pen. Sömu sögu er að segja um hvor sé líklegri til að ná fram meirihluta á þinginu þar sem 70 prósent segja Macron, en 23 prósent Le Pen.

Jafnframt var spurt hvor frambjóðandinn skilji almenning betur. Þar sögðu 47 prósent Macron, en 42 prósent Le Pen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×