Erlent

Juncker segir mikilvægi enskrar tungu vera að minnka

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker er forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Jean-Claude Juncker er forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Vísir/AFP
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að mikilvægi enskrar tungu í Evrópu sé að minnka. Juncker lét orðin falla á ráðstefnu á Ítalíu fyrr í dag.

Mikil spenna er nú í samskiptum ESB og Bretlands þegar framundan eru viðræður um útgöngu Bretlands úr sambandinu.

Athygli vakti að Juncker flutti ræðu sína á frönsku. „Hægt og bítandi er enskan að missa mikilvægi sitt í Evrópu, auk þess að það eru kosningar í Frakklandi,“ sagði Juncker þegar hann var spurður út í val sitt á tungumáli þegar hann flutti ræðuna.

Hlátur braust út í salnum þegar Juncker lét orðin falla og mátti sjá hann brosa.

Juncker lýsti útgöngu Bretlands sem „harmleik“. „Við munum semja við breska vini okkar á sanngjarnan máta, en við skulum ekki gleyma því að það er ekki ESB sem er að yfirgefa Bretland – það er Bretland sem er að yfirgefa ESB, og það skiptir máli.“

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sakað forkólfa ESB um reyna að hafa áhrif á komandi þingkosningar í Bretlandi þann 8. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×