Enski boltinn

Bravo hefur lokið leik á tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bravo meiddist á kálfa í grannaslagnum gegn Manchester United.
Bravo meiddist á kálfa í grannaslagnum gegn Manchester United. vísir/getty
Claudio Bravo hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester City á þessu tímabili.

Bravo meiddist á kálfa í grannaslag City og Manchester United 27. apríl og Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Sílemaðurinn yrði ekki meira með á tímabilinu.

Bravo kom til City frá Barcelona í haust en hefur ekki staðið undir væntingum á Etihad.

Sílemaðurinn hefur fengið á sig 26 mörk í 22 deildarleikjum með City og aðeins sex sinnum haldið markinu hreinu. Til samanburðar hefur hinn markvörður City, Willy Caballero, fengið á sig 11 mörk í 13 deildarleikjum og haldið fimm sinnum hreinu.

City er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 66 stig. Liðið á fjóra leiki eftir; heimaleiki gegn Crystal Palace, Leicester City og West Brom og útileik gegn Watford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×