Erlent

Bandarískur hermaður lét lífið í Sómalíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Sómalskir hermenn hafa um árabil barist gegn al-Shabaab.
Sómalskir hermenn hafa um árabil barist gegn al-Shabaab. Vísir/AFP
Bandarískur hermaður lét lífið og tveir særðust í skotbardaga gegn vígamönnum al-Shabaab samtakanna í Sómalíu. Bardaginn fór fram við bæinn Baiire skammt vestur af Mogadishu, höfuðborg Sómalíu.

Samkvæmt tilkynningu frá hernaðaryfirvöldum Bandaríkjanna voru hermennirnir að ráðleggja og aðstoða sómalska hermann í aðgerðum þeirra. Al-Shabaab hefur lýst yfir hollustu við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin og hefur í um áratug barist við að reyna að velta stjórnvöldum Sómalíu úr sessi.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hafa bandarískir sérsveitarmenn aðstoðað heimamenn í Sómalíu um árabil. Eftir að Trump tók við embætti forseta dró hann úr takmörkunum á fjölda hermanna í Sómalíu og heimilaði að tugir hermanna úr 101. fallhlífaherdeildinni yrðu sendir til landsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bandarískur hermaður lætur lífið í Sómalíu síðan 18 hermenn dóu og 73 særðust í orrustunni um Mogadishu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×