Innlent

Vigdísarstofnun líst best á Þórunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vigdís vill nýta sjónvarp til kennslu í ýmsum greinum. "Jafnvel að gera það að eins konar opnum háskóla,“ segir hún.
Vigdís vill nýta sjónvarp til kennslu í ýmsum greinum. "Jafnvel að gera það að eins konar opnum háskóla,“ segir hún. Visir/GVA
Vigdísarstofnun, alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, hefur kveðið upp sinn dóm um hvern stofnunin telur best til þess fallin að standa vaktina í hlutverki viðburða- og kynningarstjóra.

Starfið var auglýst til umsóknar á dögunum og sóttu 73 um starfið. Í bréfi sem sent var til umsækjenda í dag kom fram að eftir gagngera skoðun umsóknargagna og viðtöl við umsækjendur hafi fjölmiðlakonan Þórunn Elísabet Bogadóttir verið ráðin í starfið.

Í framhaldinu kom í ljós að starfsmenn stofnunarinnar voru heldur fljótir til að tilkynna ráðninguna. Þótt Þórunn Elísabet hefði sótt um starfið og væri þeirra fyrsti kostur er Þórunn ekki búin að ráða sig til stofnunarinnar. Var það svo að Þórunn las það fyrst á Vísi að hún hefði verið ráðin í starfið og kom það henni eðlilega á óvart. 

Þórunn Elísabet hefur starfað við fjölmiðla frá árinu 2007. Fréttablaðið, Viðskiptablaðið og Kjarninn hafa öll notið starfa hennar þar sem hún er nú aðstoðarritstjóri. Hún er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc-gráðu í alþjóðlegum og evrópskum stjórnmálum frá Edinborgarháskóla.

 

Þórunn er þrítug en með mikla reynslu úr fjölmiðlum.
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er rannsóknastofnun á Hugsvísindasviði Háskóla Íslands og rannsóknavettvangur starfsmanna í Mála- og menningardeild. Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar er ný alþjóðleg stofnun, sem tók til starfa 20. apríl undir merkjum UNESCO – menningar-, mennta- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, skv. sérstökum samningi.

Starfsemi stofnananna tveggja taka mið af því mikilvægi sem tungumál hafa á öllum sviðum mannlífs og þjóðlífs og af þeirri sannfæringu að kunnátta í erlendum tungumálum og þekking á menningu annarra þjóða sé dýrmæt fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild. Auk þess gegna þýðingar mikilvægu hlutverki í starfseminni.

Verkefni stofnananna felast í að rannsaka erlend tungumál og menningu frá fjölmörgum sjónarhornum m.a. menningar, bókmennta og þýðinga auk kennslu, samskipta og notagildis tungumála í atvinnulífi. Áhersla er lögð á að miðla þekkingu á framangreindum fræðasviðum með fyrirlestrahaldi, málþingum, ráðstefnum og útgáfu fræðirita og með sýningum og menningarviðburðum fyrir leika og lærða.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:53 eftir að í ljós kom að þvert á það sem stóð í bréfi frá stofnuninni til umsækjenda þá hefur ekki verið gengið frá ráðningu Þórunnar í starfið.


Tengdar fréttir

Getum látið gott af okkur leiða með samstöðu

Auður Hauksdóttir hefur allt frá hugmyndinni að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum leitt starf stofnunarinnar sem verður opnuð með formlegum hætti í nýju húsi á sumardaginn fyrsta.

Vill gera Veröld heimsfræga

"Amma er komin! Það má ekki segja hæ og bæ.“ Þetta segja barnabörn Vigdísar Finnbogadóttur sem kennir þeim að slík kveðja sé jafn merkingarlaus og að segja voff, voff. Hún vill nýta sjónvarpið til kennslu í ýmsum greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×