Erlent

Hollande heitir viðbrögðum við gagnalekanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Forseti Frakklands, Francois Hollande.
Forseti Frakklands, Francois Hollande. Vísir/AFP
Forseti Frakklands, Francois Hollande, hefur heitið því að „svara fyrir“ árás tölvuþrjóta á herbúðir Emmanuel Macron, annars frambjóðenda forsetakosninganna sem fram fara á morgun í Frakklandi. BBC greinir frá.

Í samtali við Agance France-Presse sagðist Hollande þekkja hætturnar við árásir af þessu tagi vegna þess að þær hafi „komið fyrir annars staðar.“

Níu gígabætum af gögnum tengdum Macron, sem innihalda bæði ósvikin og fölsuð skjöl, var lekið á netið í gær.

„Við vissum að þessi áhætta væri til staðar á meðan á kosningaherferðinni stóð vegna þess að þetta hefur komið fyrir annars staðar. Við munum bregðast við öllu,“ sagði Hollande. Hann vildi þó ekki tjá sig um fullyrðingar Macron þess efnis að lekinn sé til þess gerður að villa um fyrir kjósendum.

Ekki fengust nánari útskýringar á yfirlýsingu Hollande. Herbúðir Macron hafa áður orðið fyrir tölvuárásum af hendi hópa sem taldir eru vera frá Rússlandi og Úkraínu.

Ekki leyfilegt að dreifa gögnunum

Fréttamaður BBC í París, Hugh Schofield, sagði að gagnalekinn kæmi líklega ekki til með að hafa áhrif á gengi Macron í kosningunum.

Samkvæmt frönskum lögum er bannað að fjalla um nokkuð sem tengist forsetakosningunum eftir að baráttunni lauk formlega á miðnætti á föstudag. Bannið gildir þangað til kjörstaðir loka klukkan átta að kvöldi sunnudags.

Þó má telja líklegt að gögnunum sem lekið var verði dreift á samfélagsmiðlum og víðar. Tímasetning lekans virðist því ekki tilviljunum háð. Þá er um leið erfitt fyrir Macron að bregðast við lekanum en samkvæmt könnunum mun hann þó líklega standa uppi sem sigurvegari kosninganna á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×