Erlent

Le Pen og Macron bæði búin að kjósa

Atli Ísleifsson skrifar
Emmanuel Macron og Marine Le Pen.
Emmanuel Macron og Marine Le Pen. Vísir/afp
Frakkar ganga að kjörborðinu í dag til að kjósa sér nýjan forseta og hafa frambjóðendurnir tveir sem kosið er um nú báðir greitt atkvæði sitt. François Hollande Frakklandsforseti hefur sömuleiðis mætt á kjörstað.

Kjörstaðir opnuðu klukkan átta að staðartíma í morgun og mun þeim síðustu loka klukkan 20, eða klukkan 18 að íslenskum tíma. Má búast við fyrstu tölum skömmu síðar.

Um klukkan níu að íslenskum tíma mætti Emmanuel Macron á kjörstað í strandbænum Touquet í norðurhluta landsins þar sem eiginkona hans Brigitte Macron á hús. Hann mun síðar í dag halda til Parísar og mun ásamt stuðningsmönnum sínum koma saman við glerpíramídann við Louvre þegar fyrstu tölur verða kynntar.

Nokkrum mínútum síðar mætti Marine Le Pen á kjörstað í Hénin-Beaumont í norðurhluta landsins, en líkt og Macron mun hún halda til Parísar síðar í dag.

Francois Hollande Frakklandsforseti, sem ákvað í haust að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu, mætti á kjörstað í Tulle í miðju landsins um klukkan tíu að staðartíma í morgun. Hollande hefur hvatt kjósendur til að kjósa Macron sem átti áður sæti í ríkisstjórn Hollande.


Tengdar fréttir

Búið að opna kjörstaði í Frakklandi

Frakkar munu í dag kjósa sér nýjan forseta þar sem kosið er á milli miðjumannsins Emmanuel Macron og Marine Le Pen, forsetaefnis Þjóðfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×