Enski boltinn

Klopp kenndi vellinum og vindinum um slaka frammistöðu

Dagur Sveinn Dagbjartsson skrifar
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp. vísir/getty
Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að þurrt grasið á Anfield og vindurinn hafi orsakað slaka frammistöðu sinna manna í dag gegn Southampton. Leikurinn endaði 0-0.

"Ég veit að enginn vill heyra þetta en ég hef hugrekki til að gera það. Völlurinn var mjög þurr í dag. Við vökvuðum hann eins og við gátum en eftir 15 mínútur var vindurinn búinn að þurrka hann upp. Þetta var erfitt," sagði Klopp.

"Ég hugsaði oft "af hverju erum við að spila svona?" En þetta var erfitt. Þegar þú vilt halda boltanum þarftu aðstæður til þess, sérstaklega á heimavelli. En í dag var það ekki svo. Það er engum að kenna," sagði Klopp ennfremur.

Klopp sagði það miður að Liverpool hafi ekki náð að halda úti góðu gengi á heimavelli eins og raunin var framan af tímabili.

"Til að ná árangri þarftu að vera með vígi á heimavelli. Það er mikilvægt. Sú var raunin lengi vel. En núna höfum við séð úrslit sem eru ekki nægilega góð. Það er ekki gott að tapa stigum á heimavelli en næst spilum við á útivelli og svo aftur heima. Við höfum enn gaman af því að spila á heimavelli," sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×