Enski boltinn

Stórveldin tvö í hættu á að skipta ekki lengur máli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Danny Welbeck stráði salti í sár síns gamla félags í gær.
Danny Welbeck stráði salti í sár síns gamla félags í gær. vísir/getty
Arsenal vann afar góðan sigur á liði Manchester United í gær. Ólíklegt er þó að sigurinn hafi afgerandi áhrif á niðurstöðu tímabilsins enda nær útilokað að þessi lið náði að komast upp í hið eftirsótta fjórða sæti deildarinnar. Þessi sigursælustu félög í sögu ensku úrvalsdeildarinnar virðast vera langt frá því að geta gert alvöru atlögu að titlinum og spurningin er hvort þau geti orðið föst í hjólförum þess að þurfa alltaf að horfa upp á önnur lið næla í titilinn.

Saga enskrar knattspyrnu er vörðuð liðum sem hafa náð hæstu hæðum en fallið úr sessi. Það fylgir sögunni að stórveldi rísi, falli og hverfi en ólíklegt að þau örlög bíði þessara félaga. Fjármunirnir og frægðin sem fylgir þessum félögum gerir það að verkum að þau verða alltaf í efri hluta deildarinnar, nema eitthvað mikið komi fyrir.

Það sem stuðningsmenn þessara félaga ættu að hafa áhyggjur af er að þessi lið hljóti sömu örlög og Liverpool hefur þurft að þola síðustu áratugi. Að vera alltaf í grennd við toppinn, nálægt titilbaráttunni, án þess þó að eiga raunverulega möguleika á því að ná í þann stóra, að hætta að skipta máli.

Þetta er það sem stuðningsmenn Arsenal hafa þurft að þola síðasta áratug. Þetta er einnig nýr raunveruleiki stuðningsmanna United undanfarin ár.

Mourinho ekki fenginn til United til að vinna Evrópudeildina

Stuðningsmenn Manchester United geta eflaust huggað sig við að liðið hefur nú þegar nælt sér í deildarbikarinn og er í góðri stöðu til þess að vinna Evrópudeildina. Tveir titlar á einu tímabili getur seint talist slæmur árangur en stuðningsmenn United einblína bara á eitt. Þeir gera kröfu um það að deildartitillinn skili sér heim á ný í 21. Skipti. United virðist hins vegar vera langt frá því að geta náð í hann, 16 stigum frá toppliði Chelsea.

Ef til vill líta menn til þess að Mourinho er á sínu fyrsta tímabili með United og er aðeins að hefja uppbygginguna. Að sama skapi má benda á fyrsta tímabili Louis van Gaal, þar sem hann náði að koma liðinu aftur í Meistaradeildina. Ákveðin bjartsýni ríkti eftir það tímabil en óhætt er að segja að Van Gaal hafi ekki tekist að endurlífga stórveldisdrauma Manchester United. Saga Mourinho bendir einnig til þess að hann er ekki langlífur hjá þeim félögum sem hann stýrir.

Vinni United Evrópudeildartitilinn getur Mourinho sjálfsagt vel við unað en hann var ekki ráðinn til United til þess að vinna þann titil, hann var heldur ekki ráðinn til að ná fimmta sætinu. Tapið í gær sýndi hvað liðið er langt á eftir hinum liðunum í toppbaráttunni. Liðið hefur til að mynda ekki skorað mark á útivelli gegn liðunum í efstu sex sætunum. Mourinho hefur afsakanirnar á þessu tímabili, en þær munu ekki gilda á því næsta.

Sigurinn gerir lítið fyrir Wenger

Arséne Wenger, stjóri Arsenal, virðist þó alveg vera á þrotum með sínar afsakanir. Stuðningsmenn félagsins virðast flestir hverjir vera orðnir langþreyttir á honum og getuleysi undanfarinna ára.

Segja má að orð Mourinho, í aðdraganda leiksins, segi allt sem segja þarf um stöðu Wenger sem þjálfara Arsenal.

„Sannleikurinn er sá að ég vona að Wenger haldi starfi sínu hjá Arsenal,“ sagði Mourinho en þeir félagar hafa eldað saman grátt silfur í gegnum tíðina. Þessi von Mourinho bendir eindregið til þess að hann telji Wenger ekki vera ógn í deildinni og miðað við gengi Arsenal að undanförnu er það ekki skrýtið.

Liðinu hefur gengið afar illa og það virðist vera eins og leikmennirnir trúi ekki lengur á verkefnið. Það er yfirleitt síðasta hálmstrá knattspyrnustjóra. Þrátt fyrir allt sem að Wenger hefur gert fyrir Arsenal er líklega tíma fyrir hann að stíga til hliðar. Sigurinn í gær breytir litlu um enda afar ólíklegt að liðið spili í Meistaradeildinni að ári sem hefur verið helsta réttlætingin fyrir þaulsætni Wenger undanfarin ár.

Staðan er einfaldlega þannig að vilji Arsenal ekki hljóta sömu örlög og Liverpool, þarf Wenger að fara. Hann getur gert það með reisn, takist liðinu að sigra ensku bikarkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×