Enski boltinn

Tryllt tölfræði úr enska: Norðmenn skora meira en Brassar og Rodgers er betri en Klopp

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp er með slakari árangur en Brendan Rodgers eftir 66 leiki.
Jürgen Klopp er með slakari árangur en Brendan Rodgers eftir 66 leiki. vísir/getty
Vefsíða breska ríkisútvarpsins, BBC, er með afar skemmtilega tölfræðiúttekt eftir helgina í enska boltanum þar sem kemur meðal annars fram að Norðmenn hafa skorað meira en Brassar í ensku úrvalsdeildinni í gegnum tíðina og að Brendan Rodgers var með betri árangur en Jürgen Klopp eftir 66 leiki hjá Liverpool.

Markið sem Nicolas Otamendi skoraði fyrir Manchester City í 5-0 sigri liðsins á Crystal Palace um helgina var 400. markið sem argentínskur leikmaður skorar í ensku úrvalsdeildinni.

Argentínumenn hafa skorað meira en erkifjendur sínir frá Brasilíu í gegnum tíðina en brasilískir leikmenn eiga að baki 322 mörk í úrvalsdeildinni. Hvorug þjóðin kemst inn á topp fimm listann en þar eru Norðmenn aftur móti í fjórða sæti á undan Nígeríu.

Norskir leikmenn hafa skorað 507 mörk í ensku úrvalsdeildinni en það eru fleiri mörk heldur en leikmenn frá Argentínu, Brasilíu, Ítalíu og Belgíu hafa skorað frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

Franskir leikmenn hafa skorað flest mörk erlendra leikmanna í úrvalsdeildinni en þar á eftir koma Hollendingar og svo Spánverjar. Frakkar eru langefstir með ríflega 1.400 mörk en engin önnur þjóð kemst yfir þúsund marka múrinn.

Í þessari úttekt BBC kemur einnig fram að árangur Brendans Rodgers sem knattspyrnustjóri Liverpool í fyrstu 66 leikjunum með liðið var betri en núverandi árangur Jürgens Klopps.

Fyrir leik Liverpool og Southampton um helgina var Klopp með nákvæmlega sama árangur og Rodgers í fyrstu 65 leikjunum; 33 sigra, 18 jafntefli og 14 töp sem gerir 117 stig.

Liverpool gerði markalaust jafntefli við Southampton í gær en Brendan Rodgers vann 66. leikinn sinn sem knattspyrnustjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×