Enski boltinn

Segir Lukaku ekki nógu góðan til að spila fyrir Manchester United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Romelu Lukaku skorar og skorar en er ekki nógu góður fyrir United.
Romelu Lukaku skorar og skorar en er ekki nógu góður fyrir United. vísir/getty
René Meulensteen, fyrrverandi aðstoðarknattspyrnustjóri Manchester United og aðalþjálfari liðsins, telur Romelu Lukaku, framherja Everton, ekki nógu góðan til að spila fyrir United. Hann skorar mörk en það er ekki nóg.

Lukaku er á leið frá Everton eftir tímabilið en Belginn hefur verið orðaður við United sem leitar sér vafalítið að framherja vegna meiðsla Zlatans Ibrahimovic. Lukaku er búinn að skora 24 mörk í ensku úrvalsdeildinni en Zlatan er markahæstur allra hjá United með 17 deildarmörk.

Meulensteen var aðstoðarmaður Sir Alex Ferguson frá 2007-2013 og hjálpaði liðinu að vinna þrjá enska meistaratitla og Meistaradeildina. Hann þykist vita hvað þarf til að spila fyrir United og Lukaku hefur ekki allt sem þarf.

„Ekki misskilja mig, Lukaku hefur spilað frábærlega og er markaskorari. Þú þarft bara svo miklu fleiri vopn ef þú ætlar að spila fyrir United. Hann þarf að bæta sig þegar hann er með boltann og að geta spilað stutt með samherjum sínum,“ segir Meulensteen í viðtali á talkSPORT.

„Hann er ekki nógu góður í þessu en þetta kemur ekki í ljós þegar hann spilar fyrir lið eins og Everton. En þegar þú spilar með bestu liðunum þurfa ákvarðanatökur á síðasta þriðjungi og allar fínhreyfingar að vera hundrað prósent í lagi.“

„Lukaku kæmi vissulega með kraft og styrk inn í liðið en það sjá allir að hann er ekki líkur þeim framherjum sem United hefur verið með í gegnum tíðina,“ segir René Meulensteen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×