Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur R. - Grindavík 1-2 | Gestirnir stálu sigrinum í uppbótartíma

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. vísir/ernir
Grindavík gerði afar góða ferð í Víkina í kvöld þar sem liðið nældi sér í þrjú stig gegn heimamönnum í Víking Reykjavík.

Víkingar réðu þó ferðinni lengst af og komust yfir á 24. mínútu þegar Geoffrey Castillion kom þeim yfir með góðu marki eftir laglegan sprett. Grindavík sá varla til sólar það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og hefði Víkingur vel getað bætt við marki áður en flautað var til hálfleiks.

Það sama var upp á teningnum lengst af í síðari hálfleik þó að skort hafo á færasköpun heimamanna. Það kom því töluvert á óvart þegar Alexander Veigar Þórarinsson jafnaði á 66. mínútu.

Það kom enn meira á óvart þegar Grindavík náði að stela sigrinum í uppbótartíma. Andri Rúnar Bjarnason skallaði boltann í netið og tryggði Grindavík góðan sigur.

Af hverju vann Grindavík?

Gestirnir nýttu færin sín, svo einfalt var það. Víkingar fengu mun fleiri færi í leiknum og réðu ferðinni lengst af en heimamenn gátu aðeins nýtt eitt þeirra. Gestirnir fengu aftur á móti ekki mikið fleiri færr en þau tvö sem þeir skoruðu úr og það réð einfaldlega úrslitum í kvöld.

Það verður einnig að hrósa Grindvíkingum fyrir að hafa kraftinn í restina til að sækja á heimamenn sem reyndu hvað þeir gátu til að ná í sigurmarkið. Við það opnuðust göt í varnarleik Víkinga, sem hafði verið góður, og Grindavík gekk á lagið.

Hverjir stóðu uppúr?

Hjá Grindavík voru það fyrst og fremst Kristijan Jajalo í markinu sem varði á köflum afar vel, ekki síst í fyrri hálfleik. Þá var Alexander Veigar Þórarinsson sprækastur af útileikmönnum Grindavíkur og var hann potturinn og pannan í þeim litla sóknarleik sem liðið spilaði í kvöld, sem þó skilaði sigrinum.

Geoffrey Castillion var einnig skeinuhættur í framlínu Víkinga og var markið sem hann skoraði afar laglegt. Hann hefði á góðum degi skorað tvö til þrjú mörk en inn vildi boltinn ekki. Hann hvarf þó í seinni hálfleik og sást lítið til hans.

Halldór Smári Sigurðsson átti góðan leik í hjarta varnarinnar hjá Víkingum, raunar allt þangað til á 90. mínútu þegar Andri Rúnar Bjarnason skoraði sigurmarkið.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Grindavíkur var slakur, ekki síst í fyrri hálfleik og það var of auðvelt fyrir Víkinga að stjórna leiknum. Þá áttu kantmenn Víkinga, þeir Ragnar Bragi Sigurðsson og Vladimir Tufegdzic ekki góðan leik og hefði meira þurft að koma frá þeim.

Færanýting Víkinga var svo ekkert til þess að hrópa húrra fyrir en Víkingur hefði líklega átt að vera minnst 2-0 yfir í hálfleik. Hefði það verið raunveruleikinn hefði Grindavík aldrei náð að vinna sig aftur inn í leikinn.

Hvað gerist næst?

Víkingar þurfa að hysja upp um sig buxurnar áður en þeir mæta lánlausu liði ÍBV í Eyjum. Grindvíkingar fara aftur á móti sáttir heim með þrjú stig og gott veganesti fyrir næsta leik þar sem liðið tekur á móti Víkingum frá Ólafsvík.

Halldór Smári Sigurðsson reynir skot að marki Grindavíkur.vísir/ernir

Milos: Hræddir við að vera með sex stig eftir tvo leiki

Milos Milojevic, þjálfari Víkings, var niðurlútur í leiks lok eftir að lið hans glutraði niður forustunni gegn Grindavík. Hann segir þó að það hafi ekki endilega komið sér á óvart.

„Ég sá alveg fyrir mér að þetta myndi gerast þegar við leyfðum þeim að spila og gera hvað sem er,“ segir Milos. „Við áttum okkar færi og fórum illa með þau og þeir taka þrjú stig og óska þeim til hamingju með það. “

Víkingar réðu ferðinni lengst af og vorum mun sterkari aðilinn. Liðið spilaði sérstaklega vel í fyrri hálfleik en tókst ekki að auka forskotið eftir að liðið komst yfir, þrátt fyrir góð færi.

„Við vorum með leikinn í okkar höndum og það var eins og við vorum hræddir að vera með sex stig eftir tvo leik,“ segir Milos. „Þetta er eitthvað sem við þurfum að fara út á æfingavöll og vinna í. Það er ekkert leyndarmál að við klúðrum færum og er refsað grimmt fyrir það.“

Grindavík gekk á lagið eftir að liðið jafnaði og segir Milos að stemmningin í hóp sinna manna hafi ekki verið rétt.

„Stemmningin á vellinum var ekki eins og ég vildi hafa hana og flæðið á boltanum ekki sem best,“ segir Milos.„ Við förum bara í sama pakka að þurfa að berjast fyrir hverju einasta stigi. Eins gott að það gerist í næstu umferð og við höfum nógan tíma til að hreinsa þetta upp.“

Víkingar mæta liði ÍBV í næstu umferð sem tapaði illa gegn Stjörnunni í gær. Milos býst við að það verði hörkuleikur.

„Þeir eru eins og særð ljón eftir 5-0 tap. Það verður erfitt en allir leikir eru erfiðir fyrir okkur.“

Óli Stefán vann sinn fyrsta útisigur sem þjálfari í efstu deild.vísir/ernir

Óli Stefán: Við erum alveg með báða fæturna á jörðinni

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var ansi kátur í leikslok, en þó með báðar fætur á jörðinni þrátt fyrir góðan árangur í fyrstu tveimur leikjum mótsins. Hann var ánægðir með sigurinn en hefði þó sætt sig við stigið.

„Ég er mjög ánægður og ef ég á að segja alveg eins og er þá hefði ég verið ánægður með stigið. Við áttum á brattann að sækja lengi vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þess vegna er það gríðarleg ánægja að ná í þrjú stig gegn frábæru Víkingsliði, vel skipulögðu og flottu liði,“ segir Óli Stefán.

Þrátt fyrir að Víkingur réði ferðinni lengst af náði Grindavík að hanga í þeim sem síðar skilaði árangri enda tókst liðinu að tryggja sér sigurinn með góðum lokamínútum. En hvað gerði það að verkum?

„Við höldum í okkar skipulag og förum ekki út úr því. Við vinnum eftir ákveðnu skipulagi sem í dag hélt okkur á lífi lengi vel. Á meðan við leggjum það í leikinn erum við alltaf líklegir og svo komum við sterkir inn síðasta hálftímann og erum bara flottir þá,“ segir Óli Stefán.

Flestir bjuggust við að tímabilið yrði erfitt fyrir Grindavík sem er þó enn taplaust. Óli Stefán virðist þó staðráðinn í að halda sínum mönnum á tánum.

„Við erum alveg með báða fæturna á jörðinni. Þetta eru tveir leikir og fjögur stig sem gefa ekkert núna ef við hættum. Þess vegna segi ég að það er mikilvægt að vera núllstilltir og vera á jörðinni.“

Einkunnir

Víkingur R. (4-3-3) Róbert Örn Óskarsson 5 - Dofri Snorrason 6, Alan Lowing 5 , Halldór Smári Sigurðsson 7, Ívar Örn Jónsson 5 - Arnþór Ingi Kristinsson 6 (85. Örvar Eggertsson), Milos Ozegovic 5 (58. Viktor Bjarki Arnarsson 5), Alex Freyr Hilmarsson 6 - Vladimir Tufegdzic 4, Geoffrey Castillion 7, Ragnar Bragi Sveinsson 4 (70. Erlingur Agnarsson 6).

Grindavík (5-3-2) Kristijan Jajalo 8 - Hákon Ívar Ólafsson, 5 Brynjar Ásgeir Guðmundsson 5, Björg Berg Bryde 5, Matthías Örn Friðriksson 5, Gunnar Þorsteinsson 6 - Milos Zeravica 5, Sam Hewson, 5 Alexander Veigar Þórarinsson 7 - Andri Rúnar Bjarnason 7, William Daniels 4 (53. Aron Freyr Róbertsson 5).

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira