Íslenski boltinn

Óli Stefán: Við erum alveg með báða fæturna á jörðinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óli Stefán Flóventsson er að þreyta frumraun sína sem þjálfari í efstu deild.
Óli Stefán Flóventsson er að þreyta frumraun sína sem þjálfari í efstu deild. vísir/ernir
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, var ansi kátur í leikslok eftir dramatískan sigur sinna manna á Víkingi Reykjavík í kvöld. Hann er þó með báðar fætur á jörðinni þrátt fyrir góðan árangur í fyrstu tveimur leikjum mótsins.

„Ég er mjög ánægður og ef ég á að segja alveg eins og er þá hefði ég verið ánægður með stigið. Við áttum á brattann að sækja lengi vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þess vegna er það gríðarleg ánægja að ná í þrjú stig gegn frábæru Víkingsliði, vel skipulögðu og flottu liði,“ segir Óli Stefán.

Þrátt fyrir að Víkingur réði ferðinni lengst af náði Grindavík að hanga í þeim sem síðar skilaði árangri enda tókst liðinu að tryggja sér sigurinn með góðum lokamínútum. En hvað gerði það að verkum?

„Við höldum í okkar skipulag og förum ekki út úr því. Við vinnum eftir ákveðnu skipulagi sem í dag hélt okkur á lífi lengi vel. Á meðan við leggjum það í leikinn erum við alltaf líklegir og svo komum við sterkir inn síðasta hálftímann og erum bara flottir þá,“ segir Óli Stefán.

Flestir bjuggust við að tímabilið yrði erfitt fyrir Grindavík sem er þó enn taplaust. Óli Stefán virðist þó staðráðinn í að halda sínum mönnum á tánum.

„Við erum alveg með báða fæturna á jörðinni. Þetta eru tveir leikir og fjögur stig sem gefa ekkert núna ef við hættum. Þess vegna segi ég að það er mikilvægt að vera núllstilltir og vera á jörðinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×