Lífið

Uppfærslan nýstárleg og full af húmor þó umfjöllunarefnið sé alvarlegt

Atli Ísleifsson skrifar
Gamanóperan fjallar um erfðamál og græðgi Buoso fjölskyldunnar.
Gamanóperan fjallar um erfðamál og græðgi Buoso fjölskyldunnar. Mynd/Gunnar Freyr
„Það eru engir dauðir punktar í þessari klukkutímalöngu sýningu og leikgleðin geislar af þessum ungu nemendum,“ segir Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz, um óperuna Gianni Schicchi eftir Gioacomo Puccini sem óperudeild skólans mun sýna í Tjarnarbíói á fimmtudagskvöld.

Gamanóperan fjallar um erfðamál og græðgi Buoso fjölskyldunnar þar sem moldríkur ættfaðirinn hefur látist og fjölskyldan hefur heyrt orðróm að hann ætli sér að láta klaustri í nágrenninu eftir allar sínar eigur. Fjölskyldan leitar erfðarskránnar og kemst að því að orðrómurinn er réttur. Nú eru góð ráð dýr en Rinuccio, einn af skyldmennum hins látna, stingur upp á að leitað verði til Gianni Schicchi sem er þekktur fyrir að vera slóttugur og eftir langt þref mætir Schicchi á staðinn og upphefst mikið sjónarspil.

Gunnar segir uppfærsluna vera nýstárlega og fulla af húmor þó umfjöllunarefnið sé alvarlegt eins og rifrildi um arf geta orðið. „Það er mikil kaldhæðni í þessari sýningu sem segja má að sé uppfærð yfir á okkar tíma, en líka mikill gáski og stundum gleði, þó hún reynist Buoso fjölskyldunni aðeins skammgóður vermir,“ segir Gunnar.

Mynd/Gunnar Freyr
Í fréttatilkynningu frá skólanum kemur fram að uppsetning óperunnar sé mikilvægur liður í starfi skólans og endurspegli nútímaleg túlkun leikstjórans þá þjálfun sem skólinn leitast við að veita nemendum sínum.

„Gianni Schicchi er eitt af lykilverkum Puccinis og verður óperan flutt á ítölsku en verður íslenskum texta varpað á skjá.

Leikstjóri sýningarinnar er Bjarni Thor Kristinsson og hefur Antonía Hevesi verið æfingastjóri tónlistarinnar en hún leikur á báðum sýningum á slaghörpuna. Elsa Waage hefur séð um ítölskuþjálfun og Jóhann Bjarni Pálmason um lýsingu.

Miðasala fer fram á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða við innganginn á undan sýningunum á fimmtudagskvöld,“ segir í tilkynningunni en tvær sýningar verða í boði, sú fyrri klukkan 19:30 og sú síðari klukkan 21.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×