Íslenski boltinn

Derby Carrillo fékk lyklana af Trabantinum eftir aðra umferðina í Pepsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Magnússon og félagar í Pepsi-mörkunum halda uppteknum hætti og velja áfram Trabant hverrar umferðar í Pepsi-deild karla. Trabant annarrar umferðar var valinn í þættinum í gærkvöldi.

„Það voru bílar framleiddir í Austur-Þýskalandi sem hætt var að framleiða árið 1990. Þeir voru á götum bæjarins í eina tíð og ég er að tala um Trabantinn góða,“ sagði Hörður Magnússon þegar hann kynnti þessi nýju „verðlaun“ Pepsi-markanna í fyrsta þættinum.

Derby Carrillo, markvörður ÍBV, fær Trabantinn í annarri umferðinni fyrir frammistöðu og framkomu sína í 5-0 tapi ÍBV á móti Stjörnunni í Garðabænum. Derby Carrillo fékk á sig vítaspyrnu í upphafi leiks sem gaf fyrsta markið og Stjörnumenn skoruðu síðan fjórum sinnum til viðbótar.

„Við erum með Derby Rafael þar. Það voru samt fjórir til fimm Trabantar tilnefndir í Eyjaliðinu,“ sagði Hörður Magnússon.

„Annað sem er leiðinlegt sem gerist í þessum leik er að hann meiðir Hólmbert Aron með einhverri vitleysu. Hólmbert verður núna frá í allavega tvær vikur,“ sagði Hjörvar Hafliðason.

Derby Carrillo var þá ljónheppinn að fá ekki dæmda á sig aðra vítaspyrnu í seinni hálfleik þegar hann lagðist á Hólmbert Aron Friðjónsson. Hólmbert var ekki eins heppinn því hann var borinn útaf meiddur í kjölfarið.

„Það rennur stoðum undir skilgreininguna á þessari bifreið að þegar menn gerast sekir um það láta dæma á sig vítaspyrnu þegar boltinn er nánast við miðlínu. Mér finnst það ekki til eftirbreytni,“ sagði Logi Ólafsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×