Enski boltinn

Árlegt hjá Gylfa á Old Trafford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark hjá Gylfa Þór Sigurðssyni á Old Trafford er orðinn árlegur viðburður. Íslenski landsliðsmaðurinn hefur nú skorað í þremur leikjum í röð í leikhúsi draumanna, eitthvað sem aðeins fjórum öðrum leikmönnum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur tekist. Það eru ekki ómerkari menn en Sergio Agüero, Emmanuel Ade­bayor, Jimmy Floyd Hasselbaink og Mark Viduka.

„Það hefur verið frábært fyrir mig að spila hérna undanfarin þrjú ár og skora í hverjum leik. Þetta var mikilvægt mark og vonandi telur þetta stig þegar talið verður upp úr kössunum,“ sagði Gylfi eftir leikinn í gær.

Swansea spilaði vel á Old Traff­ord og jafntefli var það minnsta sem liðið átti skilið út úr leiknum. Það var þó Manchester United sem náði forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Wayne Rooney skoraði úr umdeildri vítaspyrnu.

Swansea gafst ekki upp og þegar 11 mínútur voru til leiksloka var komið að Gylfa. Rooney braut þá klaufalega á Jordan Ayew fyrir utan vítateig og Neil Swarbrick dæmdi aukaspyrnu. Það var aldrei neinn annar að fara að taka spyrnuna en Gylfi og honum brást ekki bogalistinn; setti boltann yfir varnarvegginn og í hornið, óverjandi fyrir David De Gea, markvörð United.

Stórkostlegt mark hjá Gylfa sem er svo sannarlega með meirapróf í því að taka aukaspyrnur. Frá því hann kom aftur til Swansea sumarið 2014 hefur enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni skorað jafnmörg mörk beint úr aukaspyrnum og íslenski landsliðsmaðurinn, eða sex talsins. Allt í allt hefur Gylfi skorað sjö mörk beint úr aukaspyrnum fyrir Swansea.

Markið hans Gylfa tryggði Swansea mikilvægt stig í fallbaráttunni. Velska liðið er þó enn í fallsæti, tveimur stigum á eftir Hull City sem er í 17. sætinu.

Bæði Swansea og Hull eiga þrjá leiki eftir á tímabilinu og þeir eru álíka erfiðir.

Swansea mætir Everton á heimavelli í næstu umferð, sækir svo fallna Sunderland-menn heim og fær svo West Brom, lið sem hefur ekki skorað í fimm leikjum í röð og virðist hætt, í heimsókn í lokaumferðinni. Hull á eftir að mæta Sunderland (heima), Crystal Palace (úti) og Tottenham (heima).

Möguleikar Swansea á að halda sér í ensku úrvalsdeildinni eru því nokkuð góðir. En jafnvel þótt liðið haldi sér uppi eru hverfandi líkur á því að Gylfi verði áfram leikmaður Swansea á næsta tímabili. Frammistaða hans í vetur hefur einfaldlega verið það góð að stærri félög hljóta að reyna að krækja í íslenska landsliðsmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×