Erlent

Armenía syndir á móti straumnum

Tímamótaþingkosningar fóru fram í Armeníu í byrjun mánaðar, þær fyrstu eftir stjórnarskrárbreytingar sem breyttu landinu í þingræðisríki. Í kosningaeftirliti á vegum ÖSE fékk blaðamaður tækifæri til að kynnast landi og þjóð.

Atli Ísleifsson skrifar
Kosningabaráttan einkenndist að langstærstum hluta af persónum og fór lítið fyrir umræðu um hugmyndafræði – hvert Armenía skuli stefna. Vísir/AFP
Þær fóru ekki hátt í erlendum fjölmiðlum, þingkosningarnar í Armeníu sem fram fóru í byrjun mánaðar. Raunar ratar Armenía sjaldan í fréttir á Vesturlöndum og margir sem vita lítið um þetta land sem er það minnsta af fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna, á stærð við Belgíu.

Það er helst að Armenía rati í fréttirnar vegna deilna við nágrannaríki sín eða afrek knattspyrnumannsins Henrikh Mkhitaryan, leikmanns Manchester United. Svo á Kardashian-fjölskyldan að sjálfsögðu rætur sínar að rekja til Armeníu.

Nýafstaðnar þingkosningar voru þó á engan hátt eins og hverjar aðrar í sögu landsins eftir hrun Sovétríkjanna. Síðla árs 2015 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem um 66 prósent kjósenda samþykktu breytingar á stjórnarskrá landsins – breytingar sem fólu í sér að Armenía yrði gert að þingræðisríki.

Serzh Sargsyan er forseti Armeníu. Margir telja að með stjórnarskrárbreytingunum hafi hann verið að búa þannig um hnútana að hann geti setið áfram við völd þegar síðara kjörtímabili hans lýkur á næsta ári.Vísir/AFP

Forseti í stólaleik?

Forsetaþingræði hefur verið við lýði í Armeníu allt frá því að landið hlaut sjálfstæði frá Sovétríkjunum 1991, þar sem forsetinn hefur stýrt skútunni og verið manna valdamestur. Er nú er hafið umbreytingatímabil sem lýkur á næsta ári þegar þingið kýs nýjan forseta sem samkvæmt nýrri stjórnarskrá er ekki ætluð mikil völd. Valdið færist þá nær allt til þingsins og ríkisstjórnar með forsætisráðherrann í broddi fylkingar.

Margir telja að með breytingunum hafi forseti landsins, Serzh Sargsyan, verið að búa þannig um hnútana að hann geti setið áfram við völd þegar síðara kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Fyrri stjórnarskrá tók fyrir að forsetinn gæti setið lengur en tvö kjörtímabil, líkt og tíðkast í Bandaríkjunum.

Nú er í raun ekkert því til fyrirstöðu, nema náttúrulega pólitískt bakland Sargsyans sjálfs, að hann gerist forsætisráðherra landsins þegar hann lætur af forsetaembætti að ári.

Synda á móti straumnum

Segja má að með þessum breytingum á stjórnskipan séu Armenar að synda á móti straumnum þar sem í þessum heimshluta, og raunar víðar, er jafnan mikið gert úr hinum sterka leiðtoga. Við sjáum það í Rússlandi og í Tyrklandi hefur Recep Tayyip Erdogan forseti og flokkur hans nú fengið í gegn stjórnarskrárbreytingar sem fela í sér stóraukin völd forseta.

Karen Karapetyan forsætisráðherra fór fyrir kosningabaráttu Repúblikanaflokksins.Vísir/AFP
Kosningabaráttan fyrir armensku þingkosningarnar hinn 2. apríl síðastliðinn fóru að mestu leyti vel fram. Ekki hafa heldur borist fréttir af miklum óeirðum eða ólgu eftir að niðurstöður lágu fyrir. Repúblikanaflokkur Sargsyan forseta og Karen Karapetyan forsætisráðherra hlaut þar tæplega helming atkvæða en öruggan meirihluta þingsæta.

Atkvæði keypt og kjósendum hótað

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) fylgdist grannt með aðdraganda og framkvæmd armensku þingkosninganna og í bráðabirgðaskýrslu stofnunarinnar, sem kynnt var daginn eftir kosningar, kom fram að framkvæmd kosninganna sjálfra hafi farið vel fram og mannfrelsi almennt virt.

Lýðveldistorgið í Jerevan.Vísir/Atli
Stofnunin tók þó einnig fram að þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar á kosningalögum sem almenn sátt virðist ríkja um, og ný tækni tekin upp til að draga úr misfellum við framkvæmd kosninganna, hafi henni borist trúverðugar upplýsingar um að kjósendum hafi verið greitt fyrir og að vinnuveitendur hafi þrýst á og hótað starfsmönnum, bæði hjá hinu opinbera og á einkamarkaði, að kjósa ákveðinn flokk. Þetta hafi spillt fyrir tiltrú armensks almennings á kosningunum og úrslitum þeirra.

Meira af því sama

Kosningabaráttan einkenndist að langstærstum hluta af persónum og fór lítið fyrir umræðu um hugmyndafræði – hvert Armenía skuli stefna. Alls voru níu flokkar eða kosningabandalög í framboði og þegar búið var að telja upp úr kjörkössunum höfðu fjögur þeirra náð mönnum inn á þing.

Repúblikanaflokkur Sargsyan og Karapetyan náði rúmlega 49 prósent atkvæða og tryggði sér 58 af 101 þingsæti í boði. Kosningabandalag Gagik Tsarukyan, viðskiptajöfurs og fyrrverandi atvinnumanns í sjómanni, hlaut rúmlega 27 prósent atkvæða og 31 þingsæti, stjórnarandstöðubandalagið Yelk (Leiðin út) níu þingsæti, og Armenska byltingarsambandið, sem studdi ríkisstjórn Repúblikanaflokksins, sjö þingsæti. Flokkur Levon Ter-Petrosyan, forseta Armeníu á árunum 1991 til 1998, hlaut ekki náð fyrir augum kjósenda og náði ekki mönnum inn á þing.

Fátækt og spilling

Þó að það sjáist ekki endilega í miðborg höfuðborgarinnar Jerevan þá er fátækt mjög mikil í Armeníu. Landsframleiðsla á hvern Armena var rúmlega fimm sinnum minni en á hvern Íslending á síðasta ári. Landið er sérstaklega háð fjárfestingum Rússa og brottfluttra Armena og er stór hluti innviða Armeníu í eigu Rússa.

Spilling er samkvæmt flestum mælingum mikil og viðvarandi vandamál í Armeníu og hefur fyrrverandi forsætisráðherra, Tigran Sargsyan, sagt hana mestu hindrunina sem ryðja þurfi úr vegi til að hægt sé að koma á nauðsynlegum umbótum með það að markmiði að bæta efnahaginn og leysa þjóðina úr viðjum fátæktar.

Rótgróin menning valdamisnotkunar, frændhygli og mútuþægni og óljós skil stjórnmála og viðskiptalífs eru á meðal þátta sem gera það að verkum að landið skipar nú 113. sæti á 176 ríkja lista samtakanna Transparency International yfir spilltustu ríki heims þar sem minnst spilling mælist í því ríki sem skipar efsta sæti listans.

Nyrðra breiðstræti í Jerevan.Vísir/Atli

Fangar sögunnar

Annar þáttur sem gerir Armenum erfitt fyrir og hamlar framþróun í landinu er samskipti landsins við tvö af þeim fjórum ríkjum sem Armenía á landamæri að. Vegna langvinnra deilna Armeníu við Tyrkland og Aserbaídsjan hafa landamæri bæði í austri og vestri verið lokuð frá fyrstu árum tíunda áratugarins.

Deilur Armena og Tyrkja má rekja lengst aftur í aldir en kristallast nú í þeirri kröfu Armena að Tyrklandsstjórn viðurkenni atburði sem urðu árið 1915 sem þjóðarmorð. Þegar Tyrkir urðu þátttakendur í fyrri heimsstyrjöld sáu stjórnvöld sér leik á borði og ráku Armena sem bjuggu í austurhluta Anatólíuskagans og höfðu gert tilraun til uppreisnar um tuttugu árum fyrr, á brott til landsvæða sunnar í heimshlutanum. Gríðarlegur fjöldi Armena lét lífið á leiðinni og er fullyrt að sveitir tyrkneska hersins hafi skipulega beitt Armenana ofbeldi.

Ómögulegt er að segja til um það hve margir Armenar hafi látið lífið á þessum tíma en er talið að það geti hafa verið allt að ein og hálf milljón manna. Tyrkir hafna þessu og segja Armenana einfaldlega hafa verið fórnarlömb átaka heimsstyrjaldarinnar. Alls hafa nú tæplega þrjátíu ríki viðurkennt atburðina sem þjóðarmorð, meðal annars Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Rússland, Kanada og 45 ríki Bandaríkjanna.

Stuðningsmenn Repúblikanaflokksins fögnuðu eftir að ljóst var að flokkurinn hefði náð hreinum meirihluta á armenska þinginu í kosningunum í byrjun mánaðar.Vísir/AFP

Víglína í austri

Deilurnar við Asera snúast hins vegar fyrst og fremst um Nagorno Karabagh, landsvæði innan landamæra Aserbaídsjan þar sem íbúar eru að langstærstum hluta Armenar. Armenar og Aserar áttu í mannskæðu stríði á árunum 1988 til 1994 þar sem tugir þúsunda féllu í valinn áður en samið var um vopnahlé. Mikil spenna hefur verið á landamærum ríkjanna æ síðan og blossuðu átök síðast upp á ný fyrir alvöru fyrir um ári í Fjögurra daga stríðinu svokallaða. Er áætlað að um 350 manns hafi þar fallið þó að þær tölur séu vissulega mjög á reiki.

Það segir sig sjálft að rótgrónar deilur Armeníu við nágrannaríkin og landlæg spilling heima fyrir munu áfram reynast Armenum erfið. Ekki lítur út fyrir að einhver lausn náist í þessum málum á næstu árum. Hvert Armenía stefnir á sömuleiðis enn eftir að koma í ljós en með nýafstöðnum kosningum hafa hins vegar verið ritaðar fyrstu línur nýs kafla í áhugaverðri og á löngum köflum sorglegri sögu armensku þjóðarinnar.

Cascade í Jerevan.Vísir/Atli
Viðbragðslisti íslensku friðargæslunnar

Íslenska friðargæslan heyrir undir utanríkisráðuneytið og annast alþjóðlegt samstarf og þátttöku Íslands í störfum í þágu friðar og mannúðaraðstoðar. Íslenska friðargæslan heldur utan um lista sérfræðinga á ýmsum sviðum sem hafa sótt um og verið valdir á viðbragðslista friðargæslunnar. Íslenska friðargæslan velur fólk til þátttöku í verkefnum, meðal annars kosningaeftirliti á vegum ÖSE, og hefur umsjón með undirbúningi þeirra og þjálfun. Hægt er að skrá sig á viðbragðslistann á vef utanríkisráðuneytisins.

Minnisvarðinn í Jerevan um þjóðarmorðið á Armenum í fyrra stríði.Vísir/Getty





×