Skoðun

Ristilspeglun, leiðin til að lækka verulega nýgengi krabbameina í ristli og endaþarmi

Ágeir Theodórs og Tryggvi Björn Stefánsson skrifar
Íbúum á Íslandi fjölgar mikið m.a. vegna þess að fólk lifir lengur og aldursflokkarnir yfir 70 ára stækka hratt. Hættan á að fá krabbamein eykst með aldri og þegar árgangarnir stækka fjölgar krabbameinstilfellunum. Aldraðir einstaklingar fá frekar fylgikvilla af meðferðum vegna krabbameins og þurfa lengri legutíma á sjúkrahúsi. Á deildum Landspítalans er þessi þróun augljós. Þar eru flestir sjúklingar í dag krabbameinssjúklingar en fyrir 20 árum hurfu krabbameinssjúklingarnir í fjöldann. Fjöldi krabbameinstilfella í ristli og endaþarmi mun tvöfaldast til ársins 2060 en fólksfjöldi mun bara aukast um 30%. Myndin sýnir að fjölgun krabbameina í ristli og endaþarmi verður mest hjá einstaklingum yfir 75 ára.

Þetta er ógnvekjandi þróun sem verður bara stöðvuð með áhrifaríkum fyrirbyggjandi aðgerðum.

Landlæknir og Krabbameinsfélag Íslands hafa komið með tillögu um að skima eftir krabbameini í ristli og endaþarmi með því að leita að blóði í hægðum með FIT rannsókn í aldurshópnum 60 til 69 ára og síðan ristilspegla þá sem eru jákvæðir (hafa blóð í hægðum). Þetta er dýr og flókin framkvæmd. Árangurinn getur verið 14% lækkun á dánartíðni vegna þess að krabbamein finnast á læknanlegu stigi. FIT skimunin hefur engin áhrif á nýgengi (tíðni) krabbameinsins og hefur engin áhrif á stig eða fjölda þeirra sem greinast eftir 75 ára aldur. FIT skimun er ekki fyrirbyggjandi aðgerð.

Áhrifarík fyrirbyggjandi aðgerð

Ristilspeglunarskimun er áhrifarík fyrirbyggjandi aðgerð. Ristilskimun, félagi áhugafólks og sérfræðinga í baráttunni gegn ristilkrabbameini, hefur komið með tillögu um að ristilspegla alla sem eru 55 ára og 60 ára í 5 ár og síðan bara þá sem eru 55 ára. Sé sú leið valin verður búið að ristilspegla alla sem eru 55 til 64 ára eftir 5 ár. Í ristilspegluninni eru fjarlægðir allir separ (kirtilæxli) úr ristlinum. Separ eru forstig 80% til 90% krabbameina í ristli og endaþarmi. Ristilspeglun sem er gerð við 55 ára aldurinn kemur í veg fyrir myndun krabbameina sem kæmu fram á aldrinum 60-69 ára. Tíu prósent hafa hááhættu sepa og verða í eftirliti samkvæmt leiðbeiningum. Samkvæmt þeim leiðbeiningum sem gilda í dag er þeim sem ekki hafa sepa ráðlagt eftirlit á 10 ára fresti.

Með ristilspeglun er hægt að finna og fjarlægja alla sepa sem eru í ristlinum. Ef ristilspeglunarskimun er gerð hjá 55 ára einstaklingum munu 30%-50% af þeim hafa sepa sem verða fjarlægðir. Tíu prósent hafa hááhættu sepa sem krefjast eftirlits. Ristilspeglunarskimun og eftirlit til æviloka getur komið í veg fyrir myndun krabbameina í ristli og endaþarmi hjá þessum hááhættuhópi.

Á Íslandi eru nú framkvæmdar rúmlega 11.000 ristilspeglanir á ári. Meðal þeirra eru um það bil 4.000 gerðar til skimunar á aldrinum 55-70 ára. Með skráningu ristilspeglana og skipulögðu eftirliti er hægt að laga til í þessu kerfi og koma á skipulagðri ristilspeglunarskimun án teljandi viðbótarkostnaðar.

Eftir 5 ár verður búið að ristilspegla alla sem eru á aldrinum 55 ára til 64 ára og það verður búið að fjarlægja alla sepa hjá þessum einstaklingum. Eftir þessi 5 ár mun koma í ljós lækkun á nýgengi krabbameina í ristli og endaþarmi hjá þeim sem hafa tekið þátt. Einstaklingum sem eru í hááhættu verður fylgt eftir til æviloka sem mun tryggja lækkun á nýgengi hjá þeim sem eru yfir 75 ára.

Heildarkostnaður af krabbameini í ristli og endaþarmi gæti verið 3 milljarðar á ári og með tvöföldun tilfella árið 2060 yrði kostnaðurinn 6 milljarðar. Það er því möguleiki að spara mikla peninga fyrir heilbrigðiskerfið með því að koma í veg fyrir myndun krabbameins í ristli og endaþarmi.

Leit að blóði í hægðum með FIT rannsókn eins og Landlæknir hefur ráðlagt er bara klór í yfirborð vandans. Með ristilspeglunum er hægt að koma í veg fyrir að krabbameinið myndist og stórlega minnka það vandamál sem við sjáum fram á að verði á Íslandi í framtíðinni af þessu krabbameini.




Skoðun

Sjá meira


×