Innlent

Játning liggur fyrir í hnífstungumálinu á Akureyri frá 18 ára pilti

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá lögreglustöðinni á Akureyri.
Frá lögreglustöðinni á Akureyri.
Átján ára gamall piltur hefur játað að hafa stungið 33 ára gamlan mann í Kjarnaskógi á Akureyri um síðastliðna páskahelgi. Morgunblaðið greindi fyrst frá játningunni.

Undanfari árásarinnar, sem átti sér stað klukkan 14 á föstudeginum langa, voru deilur milli mannsins sem var stunginn og annars aðila. Pilturinn sem hefur játað verknaðinn ákvað að stinga manninn tvívegis í lærið og flúðu allir af vettvangi í kjölfarið nema kærasta mannsins sem varð fyrir árásinni.

Ríkisútvarpið greindi frá því að kærastan hefði bundið reim úr buxnastreng utan um læri mannsins til að reyna að stöðva slagæðarblæðingu sem hann hlaut.

Sjúkraflutningamenn fluttu manninn á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann gekkst undir tæplega sex klukkustunda langa aðgerð þar sem unnið var að því að stöðva blæðinguna. Hann var úr lífshættu eftir aðgerðina.

Lögreglan fann piltinn samdægurs á Akureyri eftir nokkra leit og handtók í kjölfarið par sem tengdist árásinni.

Pilturinn sem játaði árásina var hnepptur í vikulangt gæsluvarðhald, ásamt parinu, til 21. apríl en lögreglan ákvað að fullnýta ekki gæsluvarðhaldsúrskurðinn þar sem tildrög málsins lágu fljótlega fyrir. Lögreglan á Akureyri segir í samtali við Vísi að játning piltsins hefði legið fyrir nokkrum dögum eftir að rannsókn hófst.

Í heild voru fimm manns handtekin vegna málsins en lögreglan á Akureyri segir þau vera fædd á árunum 1990 til 1999. Sá sem játaði árásina er fæddur árið 1999.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×