Skoðun

Kjarnorkuskák

Helgi Steinar Gunnlaugsson skrifar
Árið 1914 braust út stríð í Evrópu eftir að austurríski erkihertoginn Frans Ferdinand var skotinn til bana í Sarajevo. Næstu fjögur árin börðust tugir þjóða í stríði sem kostaði rúmar tíu milljónir manna lífið. Vanalega myndi slíkt launmorð ekki hafa þau áhrif, en þá hafði þegar myndast mikil valdakreppa í Evrópu og gerði sú hættuklemma stríð nánast óhjákvæmilegt. Það þurfti bara eina eldspýtu til að sprengja púðurtunnuna.

Heimurinn hefur mikið breyst á þeim hundrað árum síðan fyrri heimsstyrjöldin var háð og þá sérstaklega vopnaburður. Kjarnorkuvopn kalda stríðsins náðu að halda jafnvel stærstu heimsveldum í skefjum. Hvorki Bandaríkin né Sovétríkin vildu byrja á einhverju sem enginn vissi endann á. Þær reglur eiga ennþá við, en eru þó langt frá því að útiloka stríð – þær gera stríð aðeins ólíklegra.

Endurræst heimsveldi

Rússland og Bandaríkin hafa eldað grátt silfur allt frá 1945 og þrátt fyrir breytt landakort þá hafa viðhorfin ekki mikið breyst. Stríðsgleði þessara þjóða hefur lítið dofnað og það sem gerir ástandið hættulegra er sameiginleg hugmyndafræði um að endurræsa þurfi dýrð þjóðarinnar. Þetta hefur sést með ákvörðunum Rússa um að senda hermenn bæði inn á Krímskaga og til Úkraínu. Þrátt fyrir „endalok“ beggja stríða í Írak og Afganistan þá halda Bandaríkin enn áfram hernaðaraðgerðum og hafa skotmörk í Sýrlandi nýlega bæst við.

Einnig hefur nýr leikmaður bæst á taflborðið. Hernaðar- og efnahagsmáttur Kínverja hefur stöðugt aukist og fyrir þjóð sem upplifði niðurlægingu af hálfu annarra ríkja, þá er óöryggistilfinning þeirra engin undantekning. Kínverjar hafa hunsað ályktanir alþjóðadómsstóla um aðgerðir þeirra í Suður-Kínahafi og segja umheiminum að hætta að skipta sér af „innanríkismálum Kínverja“.

Heimurinn býr núna við ástand þar sem þrjár voldugustu þjóðirnar taka hernaðarlegar ákvarðanir án þess að hugsa sig tvisvar um. Þær lifa í stöðugum ótta og hafa sannfært sig um að þær þurfi að verja hagsmuni sína með hernaðarlegu valdi.

Kóreuskaginn

Frá árunum 1910 til 1945 var Kórea undir stjórn Japans. Í ágúst 1945 lýstu Sovétríkin yfir stríði á hendur Japan og þegar þeir gáfust upp var yfirráðasvæði þeirra í Kóreu skipt í tvennt. Sovétríkin fengu norðurhlutann og Bandaríkin réðu í suðri. Landamærin lágu við 38. breiddargráðu og eftir að Norður-Kóreumenn réðust síðan yfir þau landamæri hófst þriggja ára stríð sem lauk með vopnahléi árið 1953. Friðarsáttmáli var aldrei undirritaður og ríkir tæknilega séð ennþá stríð á milli Norður- og Suður-Kóreu.

Eina vinaþjóð Norður-Kóreu hefur hingað til verið Kína. Þó svo að þessar tvær þjóðir væru bandamenn í Kóreustríðinu fyrir hálfri öld, þá hafa þær tekið mjög ólíkar stefnur síðan þá. Kína gafst upp á maóismanum og hefur opnað efnahag sinn fyrir erlendum fjárfestum. Norður-Kórea hefur hins vegar lítið breyst. Það er ákveðin kaldhæðni að stærsta kommúnistaþjóð heims er núna sú þjóð sem vill áframhaldandi frið hvað mest. Kínverski efnahagurinn myndi stórtapa á stríði og þar sem efnahagsgróði er stór hluti af lögmæti ríkisstjórnarinnar, þá verður hún að viðhalda þeim gróða til að halda völdum.

Á meðan samskipti Kína og Norður-Kóreu voru bærileg, gátu Kínverjar alltaf sannfært stjórnvöld í Pyongyang um að haga sér skikkanlega ef svo bar undir. En samskipti þeirra hafa nú versnað og eru stjórnvöld í Peking orðin langþreytt á endalausum ögrunum og eldflaugatilraunum nágranna sinna. Bandaríkin hafa nú sent flugmóðurskipið USS Carl Vinson á Kóreuskagann, sem stjórnvöld Norður-Kóreu segjast tilbúin að sökkva. Ef Kína getur ekki notað sannfæringarkraft sinn í þetta skipti þá er vart hægt að hugsa þá hugsun til enda hvernig þessi skák gæti mögulega endað.

Púðurtunnan

Í mannkynssögunni eiga stríð sér yfirleitt forsögu sem samanstendur af þjóðernishyggju, hagsmunadeilum, efnahagsvandamálum og ögrunum. Kröfur sem Bandaríkin, Kína, Rússland og Norður-Kórea eru öll að uppfylla. Bandarísk flugmóðurskip eru siglandi við Kóreuskagann á meðan Norður-Kórea skýtur upp eldflaugum. Kínverjar hafa þegar sent 150 þúsund hermenn að landamærum Norður-Kóreu og eru Japanir farnir að ræða hvernig hjálpa megi þegnum sínum að flýja Suður-Kóreu. Það er erfitt að segja til um það hvort þetta muni virkilega enda í stríði, en púðurtunnan er vissulega full og hlaðin.

Á árunum rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina var stríð ekki talið vera mjög líklegt. Evrópa stóð fyrir miklum efnahagsgróða og lýðræðisbreytingum, en innan við veggi ríkisstjórna var púður­tunna að fyllast af valdakreppu og vantrausti. Hvað varðar þessa púðurtunnu í dag, er bara spurning um hvort hún muni springa á sama hátt og fólkið í Evrópu upplifði í júlí 1914.




Skoðun

Sjá meira


×