Bíó og sjónvarp

M. Night Shyamalan gerir framhald að Unbreakable og Split

Birgir Olgeirsson skrifar
Samuel L. Jackson og Bruce Willis í Unbreakable.
Samuel L. Jackson og Bruce Willis í Unbreakable. Vísir
Kvikmyndagerðarmaðurinn M. Night Shyamalan hefur uppljóstrað áætlun sína um að gera framhald myndanna Split og Unbreakable sem mun fá heitið Glass.

Á vef Variety er greint frá því að Bruce Willis, Samuel L. Jackson, James McAvoy og Anya Taylor-Joy muni fara með aðalhlutverk í þessari mynd.

Unbreakable kom út árið 2000 en í henni fóru Bruce Willis og Samuel L. Jackson með aðalhlutverkin. Myndin fjallaði um öryggisvörð sem kemst að því að hann er nánast ónæmur fyrir hverskyns skaða og jafnframt sterkari en meðalmaðurinn. Bruce Willis fer með hlutverk öryggisvarðarins en Samuel L. Jackson lék myndasögusafnarann Elijah Price sem er ólíkt persónu Bruce Willis, afar viðkvæmur fyrir öllu hnjaski.

Split kom út í ár en hún segir frá manni sem býr yfir 23 mismunandi persónuleikum. Hann nemur þrjár táningsstúlkur á brott en þær uppgötva að þær verði að sleppa úr haldi áður en 24. persónuleikinn brýst fram í ræningja þeirra. James McAvoy og Anya Taylor-Joy léku aðalhlutverkin í Split.

Shyamalan greindi frá þessu fyrirætlunum sínum á Twitter en þar sagði hann handrit þessarar myndar hafa verið í vinnslu í sautján ár.

„Það var alltaf draumur minn að þessar tvær myndir myndu sameinast í þriðju myndinni,“ segir Shyamalan á Twitter.

Myndin verður frumsýnd á heimsvísu 18. janúar á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×