Skoðun

Reykjavík er ekki allt Ísland

Ívar Ingimarsson skrifar
Síðan um 1980 hefur verið stöðug fækkun íbúa á landsbyggðinni, fólk byrjaði að færa sig til borgarinnar þar sem þjónusta, afþreying og aðstaða byggðist upp.

Kvótakerfinu var komið á um 1984 til að hagræða í greininni og við það hrundu byggðir víða um land og straumur fólks suður jókst. Fólki fækkaði, opinber þjónusta og störf fylgdu á eftir og niðurspírallinn hófst af fullum þunga.

Síðan þessi þróun hófst hefur lítið breyst. Fólki úti á landi fjærst höfuðborginni fækkar ef Akureyri er undanskilin, vaxtar- og þensluskeið koma og fara, byggingakranar vinna 24 tíma á sólarhring í höfuðborginni en ekki úti á landi.

Á síðustu árum hefur samt hafist breyting á þessu þegar ferðaþjónusta ruddi sér til rúms sem atvinnugrein af áður óþekktri stærðargráðu. Ungt fólk sá í henni ný tækifæri og þeir sem höfðu verið að berjast í greininni til fjölda ára sáu loksins ljósið eftir hark fyrri ára.

Ferðaþjónustan býr ekki bara til störf og atvinnutækifæri heldur fylgir henni líka mikil þjónusta og afþreying. Ekki bara fyrir ferðamenn, heldur líka landsmenn og það er eitthvað sem hefur ekki síst vantað í minni byggðakjarna á landsbyggðinni. Veitingastaðir opnuðu, afþreyingarfyrirtæki urðu til, farið var að fjárfesta í húsnæði og gera upp hús sem höfðu jafnvel staðið tóm í fjölda ára. Ferðaþjónustan byrjaði að glæða lífi svæði sem höfðu farið illa út úr hagræðingu í sjávarútvegi og atvinnuskorti liðinna áratuga.

Lengst af var ferðaþjónustan á Austurlandi sumaratvinnugrein og flestir rekstraraðilar gátu aðeins haft opið þrjá til fjóra mánuði af árinu. Þetta hefur verið að breytast hægt og rólega og á undanförnum tveimur til þremur árum hafa margir byrjað að hafa opið allt árið í von um að straumur ferðmanna haldi áfram að aukast. Heilsársstarfsfólki hefur fjölgað samhliða þessu en enn í dag er reksturinn samt erfiður og fyrirtækin á svæðinu eru rekin með tapi yfir vetrarmánuðina.

Fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu

Á þessum tímapunkti tilkynnir ráðherra að ferðaþjónustan sé búin að slíta barnsskónum. Atvinnugrein sem græðir á ofsavexti í fjölda ferðamanna geti ekki verið á „undaþágu“ varðandi virðisaukaskatt og minka verði fjölda ferðamanna inn í landið hvort sem fyrirtækin ráða við það eða ekki. Vaskinn skal hækka um meira en 100% með 15 mánaða fyrirvara, á sama tíma og gengið hefur styrkst um tugi prósenta og laun hækkað.

Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi horfa hvor á annan og trúa ekki sínum eigin augum og eyrum. Við búum og rekum fyrirtæki á svæði þar sem nýting hótela í heilsársrekstri er undir 20% fimm til sex mánuði á ári. Svæði þar sem rétt um 27% ferðamanna fara um og greinin er að byrja að fóta sig. Það segja ráðherrar fjármála og ferðamála að sé að vera búin að slíta barnsskónum.

 

Ekkert samtal átti sér stað við atvinnugreinina um fyrirhugaða hækkun skattsins. Engin greining á áhrifum hefur átt sér stað, ekkert tillit er tekið til mismunandi aðstæðna og staðsetningar fyrirtækja í greininni. Excel skjal embættismannanna virðist vera það sem trúa skal á í blindni. Excel skjalið tekur ekki tillit til mismunandi aðstæðna, landsbyggðirnar og höfuðborgin eru eitt, skjalið segir að Ísland allt árið sé raunveruleikinn, þegar staðreyndirnar segja allt annað. Staðreyndin er sú að excel skjalið mun stórskaða ferðaþjónustu á Austurlandi og á öðrum svæðum sem búa við svipaðan raunveruleika.  




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×