Fótbolti

Aron sagður vera á förum frá Bremen

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá Aroni í Bremen.
Hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá Aroni í Bremen. vísir/getty
Kicker í Þýskalandi segir að Aron Jóhannsson muni yfirgefa herbúðir þýska liðsins Werder Bremen í sumar.

Aron hefur fallið niður goggunarröðina hjá Bremen og aldrei náð sér almennilega á strik eftir að hafa meiðst alvarlega og verið frá í marga mánuði.

Kicker segir að orð framkvæmdastjóra félagsins, Frank Baumann, um leikmannamál félagsins megi þýða á einfaldan hátt. Aron mun yfirgefa félagið í sumar.

Nú er spurning hvað Aron gerir næst. Hann mun líklega leita fyrir sér í Evrópu áður en hann skoðar möguleika sína í Bandaríkjunum þar sem yrði slegist um hann.

Bandaríski landsliðsmaðurinn hefur áður sagt að hann vilji spila í Bandaríkjunum á einhverjum tímapunkti á sínum ferli en hvort sá tímapunktur sé núna er spurningin.

Ef hann ákveður að fara til Bandaríkjanna þá mun Houston Dynamo fá fyrsta rétt til þess að semja við framherjann samkvæmt NBC.

Aron er á sínu öðru tímabili hjá Bremen og hefur aðeins náð að spila sautján leiki og skorað þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×