Íslenski boltinn

Pepsi-spáin 2017: FH hafnar í 1. sæti

Íþróttadeild 365 skrifar
FH-ingar fagna áttunda Íslandsmeistaratitli sínum.
FH-ingar fagna áttunda Íslandsmeistaratitli sínum. vísir/anton
Íþróttadeild 365 telur niður í Pepsi-deild karla með árlegri spá sinni. Íslandsmótið hefst 30. apríl en þar á FH titil að verja eftir að hafa orðið meistari í áttunda sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild 365 spáir FH 1. sæti deildarinnar í ár sem þýðir, að ef spáin rætist, vinnur FH Íslandsmótið þriðja árið í röð í annað sinn í sögunni og fagnar sínum níunda Íslandsmeistaratitli síðan 2004. FH-liðið hefur borið höfuð og herðar yfir önnur lið síðustu þrettán árin og á þeim tíma aldrei hafnað neðar en í öðru sæti.

Þjálfari FH er Heimir Guðjónsson sem kom sem leikmaður til FH árið 2000 og hefur verið þar síðan. Hann byrjaði sem leikmaður, varð svo aðstoðarþjálfari og síðar þjálfari en hann tók einn við árið 2008. Hann hefur komið að öllum átta Íslandsmeistaratitlum FH og unnið fimm þeirra sem aðalþjálfari.

Mögulegt byrjunarlið
vísir
FH-ingar eiga tvo stórleiki í fyrstu fimm umferðunum á móti Val og KR á útivelli þannig ekki fá meistararnir þægilegustu byrjunina.

Aftur á móti byrja þeir á móti Skaganum og eiga einnig leiki við KA og Fjölni heima sem eru leikir sem FH vinnur ef allt er eðlilegt.

El Clásico Íslands, KR-FH, er á dagskrá í fimmtu umferð. Enn eitt árið er þetta of snemma en þó skárra en í fyrstu umferð eins og fyrir tveimur árum.

30. apr: ÍA – FH, Norðurálsvöllurinn

08. maí: FH – KA, Kaplakrikavöllur

15. maí: Valur – FH, Valsvöllur

22. maí: FH – Fjölnir, Kaplakrikavöllur

28. maí: KR – FH, Alvogenvöllurinn

Þrír sem FH treystir á
Gunnar Nielsen, Bergsveinn Ólafsson og Kristján Flóki Finnbogason.vísir/ernir
Gunnar Nielsen: Færeyski landsliðsmarkvörðurinn er einn sá allra besti í deildinni ef ekki einfaldlega sá besti. Fyrir aftan sterka vörn FH-liðsins fékk hann aðeins 17 mörk á sig á síðustu leiktíð en hann varði oft á tíðum úr algjörum dauðafærum. FH er að spila öðruvísi leikkerfi núna, 3-4-3, sem það er enn þá að slípa til og því þarf Gunnar áfram að vera á tánum og verja eins og hann gerði í fyrra.

Bergsveinn Ólafsson: Miðvörðurinn kom frá Fjölni í fyrra og sannaði á fyrstu leiktíð að hann á heima í besta liði landsins. Hann spilaði virkilega vel og átti stóran þátt í því að FH varð Íslandsmeistari tiltölulega auðveldlega. Nú er FH að spila með þrjá miðverði en samt er hann oft eini alvöru miðvörðurinn af þeim þremur þar sem sú staða er þunnskipuð hjá FH og Doumbia verið meiddust. Bergsveinn gæti þurft að taka enn meiri ábyrgð í sumar.

Kristján Flóki Finnbogason: Framherjinn var mjög lengi í gang síðasta sumar en var byrjaður að skora undir lok móts. Það hefur hann tekið með sér inn í veturinn en Flóki raðaði inn mörkum á undirbúningstímabilinu. Þessi hæfileikaríki leikmaður þarf að skora miklu meira en í fyrra en markaskorun var ekki mikil hjá FH sem treysti bara á vörnina og skoraði aðeins 32 mörk.

Nýstirnið

Grétar Snær Gunnarsson er strákur fæddur árið 1997 sem hefur verið að fá spilmínútur á undirbúningstímabilinu en hann verður vafalítið í mjög litlu hlutverki í sumar og gæti þess vegna farið á lán.

FH-ingar eru ekkert í því að kaupa einhverja gosa en til liðsins eru komnir tvær Stjörnur í Halldóri Orra og Veigari Páli. Engin nýstirni þar á ferð.

Markaðurinn
Halldór Orri vildi ólmur ganga í raðir FH.vísir/vilhelm
Komnir:

Guðmundur Karl Guðmundsson frá Fjölni

Halldór Orri Björnsson frá Stjörnunni

Robbie Crawford frá Skotlandi

Veigar Páll Gunnarsson frá Stjörnunni

Vignir Jóhannesson frá Selfossi

Farnir:

Brynjar Ásgeir Guðmundsson í Grindavík

Hörður Ingi Gunnarsson í Víking Ó. á láni

Jeremy Serwy til Belgíu

Kaj Leo í Bartalsstovu í ÍBV

Kristján Finnbogason hættur

Sam Hewson í Grindavík

FH-ingar eru ekkert í því að kaupa einhverja gosa en til liðsins eru komnir tvær Stjörnur í Halldóri Orra og Veigari Páli. Engin nýstirni þar á ferð. Halldór Orri hefur ekki náð sama flugi eftir að hann kom úr atvinnumennsku og hann var á áður en hann fór út og óvíst er hversu mikið er eftir á tankinum hjá Veigari Páli.

Annað árið í röð sömdu FH-ingar við fyrirliða Fjölnis. Guðmundur Karl er afar fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður. Crawford er 23 ára miðjumaður sem er uppalinn hjá skoska stórveldinu Rangers. Hann hefur farið vel af stað í búningi FH og mun styrkja liðið. Vignir var fenginn til að vera varamarkvörður fyrir Gunnar eftir að Kristján Finnbogason lagði skóna á hilluna.

Serwy og Kaj Leo sýndu lítið síðasta sumar og það verður ekki mikill söknuður að þeim. Brynjar Ásgeir og Hewson voru inn og út úr byrjunarliðinu í fyrra og fóru til Grindavíkur þar sem þeir verða í stærri hlutverkum.

Hvað segir Hjörvar
vísir/pjetur
„Mér finnst mjög líklegt að FH verði Íslandsmeistari,“ segir Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Pepsi-markanna, um FH.

„Eins og staðan er í dag er FH að fara að spila með þrjá miðverði en eiga bara einn heilan miðvörð. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir bæti við sig miðverði áður en langt um líður.“

„Ef við horfum frá vörninni inn á miðsvæðið og fram eiga þeir alveg ótrúlegt magn af leikmönnum. Breiddin sé mest þar.“

„Það reyndi rosalega lítið á FH í fyrra. Þetta var auðveldur Íslandsmeistaratitill fyrir þá að vinna. Þeir skoruðu lítið af mörkum en fengu fá mörk á sig.“

„Ef allt er eðlilegt er það mín skoðun að FH verður Íslandsmeistari í haust,“ segir Hjörvar.

Að lokum
Heimir hefur gert FH fimm sinnum að Íslandsmeisturum.vísir/hanna
Það sem við vitum um FH er ... að liðið er gríðarlega vel mannað fyrir utan kannski í miðvarðastöðunum. Breiddin í liðinu er ógnvænleg og magnið af miðjumönnum og sóknarmönnum sem gætu byrjað fyrir öll önnur lið deildarinnar er svakalegt. Þjálfarinn er sá besti á landinu, umgjörðin sú flottasta og sigurhefðin orðin gríðarleg. FH er best mannaða lið landsins og á að verða Íslandsmeistari.

Spurningamerkin eru ... breiddin í vörninni. Liðið er aðeins með tvo miðverði, Bergsvein Ólafsson og Kassim Doumbia, en er á höttunum eftir þeim þriðja. FH gæti byrjað með tvo bakverði við hliðina á Bergsveini í hjarta varnarinnar og eiga leiki á móti KR og FH í fyrstu umferðunum.

Atli Guðnason er í stóru hlutverki hjá FH eins og undanfarin ár.vísir/eyþór
Í besta falli: Heldur FH áfram að vera FH. Varnarleikurinn verður jafn traustur og alltaf og Gunnar Nielsen frábær í markinu. FH heldur áfram að murka lífið úr litlu liðunum og halda öllum keppinautum sínum í eltingarleik nánast frá fyrstu umferð. Ef allt er eðlilegt hjá FH verður liðið meistari þriðja árið í röð.

Í versta falli: Byrjar FH illa út af vandræðunum í vörninni og menn fara að vera sérstaklega pirraðir á bekknum vegna lítils spiltíma. Reyndar leysir Heimir Guðjónsson það alltaf mjög vel. Það er fátt sem getur komið upp á hjá FH þannig ef liðið verður ekki meistari lendir það væntanlega í öðru sæti eins og undanfarin þrettán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×