Erlent

Tugir fallnir og þriggja mánaða neyðarástand í Egyptalandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rannsakendur fínkemba vettvang árásar.
Rannsakendur fínkemba vettvang árásar. Nordicphotos/AFP
Tvær sprengjuárásir sem beindust gegn kristna trúarsöfnuðinum koptum voru gerðar í Egyptalandi í gær. Alls féllu 45 í árásunum.

Fyrri árásin var gerð á kirkju heilags Georgs í borginni Tanta. Þar fórust 29 og 78 særðust.

Síðari árásin var á kirkju heilags Markúsar í Alexandríu og féllu þar sextán.

Páfi kopta, Tawandros annar, var í Markúsarkirkju þegar árásin var gerð en ríkismiðlar í Egyptalandi greina frá því að hann hafi ekki sakað. Að minnsta kosti 35 særðust í árásinni.

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki sögðust í gær bera ábyrgð á árásunum. Undanfarnar vikur hafa samtökin ráðist endurtekið á kopta í Egyptalandi en þeir eru minnihlutahópur.

Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, lýsti í gær yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu.

Þá fyrirskipaði hann einnig egypskum hermönnum að standa vörð víðs vegar um landið til að verjast frekari árásum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×