Viðskipti innlent

VÍS komið með 25 prósent í Kviku eftir kaup á hlut Seðlabankans

Hörður Ægisson skrifar
VÍS og stórir hluthafar í félaginu eiga núna 40% í Kviku.  Fréttablaðið/GVA
VÍS og stórir hluthafar í félaginu eiga núna 40% í Kviku. Fréttablaðið/GVA
Tryggingafélagið VÍS hefur gengið frá kaupum á 3,06 prósenta hlut Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) í Kviku, samkvæmt heimildum Markaðarins. Eftir kaupin á VÍS liðlega 25 prósenta hlut og er langsamlega stærsti einstaki hluthafi fjárfestingabankans. Hlutur ESÍ var auglýstur til sölu um miðjan síðasta mánuð.

Áður hafði VÍS staðið fyrir kaupum á tæplega 22 prósenta hlut í Kviku í ársbyrjun og nam heildarkaupverðið þá um 1.655 milljónum króna. Ekki fást staðfestar upplýsingar um hvað félagið greiddi fyrir hlut Seðlabankans í Kviku en ef gengið var hið sama og í janúar síðastliðnum, þegar VÍS keypti bréf í bankanum fyrir 5,4 krónur á hlut, þá nemur kaupverðið um 230 milljónum króna.

Í hluthafahópi Kviku eru jafnframt tveir stærstu einkafjárfestarnir í VÍS með samanlagt fimmtán prósenta hlut. Hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, fyrrverandi aðaleigendur Skeljungs, eignuðust þannig ríflega átta prósenta hlut í bankanum í desember 2016 auk þess sem félagið Grandier ehf., sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og meðfjárfesta, keypti á sama tíma um sjö prósent. VÍS og stórir hluthafar í félaginu eiga því núna samanlagt um 40 prósenta hlut í Kviku banka.

Svanhildur Nanna var sem kunnugt er kjörin stjórnarformaður VÍS þann 15. mars síðastliðinn og tveimur vikum síðar tilkynnti Herdís Dröfn Fjeldsted, sem hafði áður gegnt starfi stjórnarformanns, að hún hefði ákveðið að segja sig úr stjórn félagsins. Þá var Guðmundur Örn jafnframt kjörinn í stjórn Kviku banka fyrir skemmstu.

Fram kom í fréttaskýringu Markaðarins í síðustu viku, þar sem greint var frá því hvernig einkafjárfestar í hluthafahópi VÍS væru búnir að ná völdum í stjórn tryggingafyrirtækisins, að með þeim breytingum sem orðið hafa á stjórn þess væru auknar líkur á því að félagið muni áður en langt um líður falast eftir meirihluta í Kviku. Þannig er vitað að helstu einkafjárfestar VÍS, sem eiga núna þrjá af fjórum fulltrúum í stjórn félagsins, hafa talað hvað mest fyrir sameiningu eða frekari kaupum í Kviku, meðal annars í því skyni að ná fram samlegðaráhrifum í eignastýringarstarfsemi. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×