Erlent

Framtakssamir fangar földu tölvur í fangelsisloftinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tölvurnar voru faldar hér.
Tölvurnar voru faldar hér. Vísir
Tveir framtakssamir fangar í Ohio-ríki nýttu sér vinnu sína í fangelsinu við að taka í sundur tölvur til að smíða sér sjálfir tölvur. Földu þeir afraksturinn í fangelsisloftinu og notuðu þær óspart sjálfir. BBC greinir frá.

Upp komst um athæfi fanganna árið 2015 en ekki hefur verið greint frá því fyrr en nú þegar skýrsla um málið varð gerð opinber.

Svo virðist sem að föngunum hafi tekist að tengja tölvurnar við internetið í gegnum netbúnað fangelsisins en ekki komst upp um þá fyrr en að tölvudeild fangelsisins varð var við óvenjulegt magn netumferðar á tölvuaðgangi verktaka sem ekki var við störf þann tiltekna dag.

Eftir að starfsmaður tölvudeildarinnar fór að grennslast fyrir um uppruna netumferðarinnar fann hann að lokum netsnúru sem leiddi upp í loft fangelsins. Þar fann hann tölvur á milli þilja.

Á tölvunum fannst töluvert magn af klámi auk upplýsinga um hvernig ætti að útbúa sprengjur og framleiða eiturlyf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×