Innlent

Íslendingar flykkjast til útlanda yfir páskana sem aldrei fyrr

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Aukinn kaupmáttur Íslendinga og ódýrar flugferðir til útlanda gera það að verkum að langtímabílstæðin við Keflavíkurflugvöll eru yfirfull. Þetta segir upplýsingafulltrúi Isavia og að met verði líklega slegið í ferðalögum Íslendinga út fyrir landsteinana þessa páskana.

Við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru um 2.400 langtímastæði. Það eru stæði sem hægt er að nota ef fólk ætlar að skella sér útlanda í skamman tíma. Þeir sem nota þessi stæði eru aðallega Íslendingar. Það virðist margir vera á ferðinni þessa páskana því yfir þrjú þúsund bílar eru á svæðinu og öll bílastæði yfirfull.

„Það er töluvert meiri umferð hérna heldur en í fyrra. Það voru 2.000 bílar í fyrra og það gekk nú bara ágætlega. Síðan þá erum við búin að stækka stæðið. Nú eru 3.000 bílar hér komnir á svæðið. Þannig að það er greinilegt, þó ég ætla ekki að vera að taka hér starf greiningadeilda bankanna, þá er væntanlega kaupmáttur Íslendinga og ódýrar ferðir til útlanda sem að gera það að verkum að stæðin eru hér full,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll.

Hann segir að í fyrra hafi verið slegið met frá árinu 2007 þegar kemur að ferðalögum Íslendinga til útlanda. „Það sem af er ári eru 20% fleiri Íslendingar sem hafa farið út og þetta er miklu meira heldur en búist var við yfir páskana,“ segir Guðni.

Guðni segir að svo geti farið að fólki verði vísað frá sem ætlar að skilja bíla sína eftir um þessa páskahelgi. Hann hvetur því ferðalanga til að gera aðrar ráðstafanir til að mynda taka rútu, strætó eða láta skutla sér. Hann á von á að slegin verði met þessa páska þegar kemur að ferðalögum Íslendinga til útlanda.

„Eftir páskana þá gefum við væntanlega út tölur um það en það lítur út fyrir það að þetta sé að slá öll met,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×