Innlent

Gott skíðafæri um allt land

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum.
Frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Vísir/Daníel
Öll helstu skíðasvæði landsins eru opin í dag og eru aðstæður sagðar mjög góðar. Mikill fjöldi hefur lagt leið sína í Bláfjöll í morgun og á Ísafirði mun sælgæti rigna af himnum ofan.

Hin árlega skíðavika á Ísafirði stendur nú sem hæst. Hlynur Kristinsson, rekstrarstjóri skíðasvæðisins á Ísafirði segir frábærar aðstæður á svæðinu.

„Bjart úti og gott veður. Við erum búin að fá nóg af snjó þannig að það eru allar brekkur opnar og aðstæður flottar.”

Og það verður nóg um að vera á svæðinu í dag?

„Já það verður hent karamellum úr flugvél yfir svæðið, svo er furðufatadagur, grillaðar pylsur hérna á pallinum og bara, brjálað fjör,” segir Hlynur.

Hólmfríður Sara Friðjónsdóttir, verkstjóri í Hlíðarfjalli á Akureyri, segir aðstæður mjög góðar.

„Það hefur snjóað töluvert. Búið að vera aðeins snjómugga hérna en er að birta til aftur. Komið töluvert af fólki á svæðið,” segir Hólmfríður.

Skíðasvæði Tindastóls á Sauðárkróki er opið alla daga yfir páska frá 10 til fjögur og þar er Viggó Jónsson forstöðumaður.

„Það eru bara fínar aðstæður. Það er mikill snjór, búið að snjóa síðustu þrjá sólarhringanna.”

Hvernig er færið?

„Færið er alveg bara mjög gott. Alveg nýfallinn snjór, þannig að þetta verður ekkert betra. Þetta er heimsbikar færi,” segir Viggó.

Í Bláfjöllum er opið frá klukkan tíu til fimm.

„Aðstæður eru bara frábærar. Hér er bara sól og heiðskírt. Frost og smá vindur. Það er aðeins að gusta á okkur núna, en færið er frábært,” segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×