Innlent

Maður frá Íslandi stunginn í Amsterdam

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ráðist var á manninn, sem búsettur er í Reykjavík, í norðurhluta Amsterdam
Ráðist var á manninn, sem búsettur er í Reykjavík, í norðurhluta Amsterdam Vísir/Getty
Ráðist var á þrítugan karlmann, sem búsettur er á Íslandi, í Amsterdam í gærkvöldi. Hann er þar staddur í fríi. RÚV greinir fyrst frá.

Maðurinn var stunginn með hnífi en er ekki talinn alvarlega særður.

Hollenskir fjölmiðlar greindu frá árásinni en þar segir að maðurinn sé íslenskur ferðamaður. Lögregluyfirvöld í Amsterdam gátu aðeins staðfest að maðurinn væri búsettur í Reykjavík og í fríi í Hollandi en ekki hvort um væri að ræða íslenskan ríkisborgara.

Árásin átti sér stað á fjölfarinni götu í norðurhluta Amsterdam, um miðnætti að staðartíma. Ekki hefur tekist að ná árásarmanninum en hann flúði vettvang og er talinn hafa haldið í átt að ferju sem flytur gangandi og hjólandi vegfarendur á milli borgarhluta.

Fórnarlamb árásarinnar var flutt á sjúkrahús en hann hlaut ekki alvarlega áverka. Ekki hefur tekist að bera kennsl á árásarmanninn og þá er ekki heldur vitað hvort hann þekkti fórnarlambið.

Samkvæmt hollenska fjölmiðlinum AD var snjallsíma mannsins stolið í árásinni en fréttastofa RÚV segir manninn ekki hafa verið rændan.

Árásir á borð við þessa eru ekki algengar í þessum hluta borgarinnar, að sögn lögreglu á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×