Fótbolti

Klúðruðu tveimur vítum á tveimur mínútum og hafa klúðrað sex vítum í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carrasco klúðraði víti og missti af þrennunni.
Carrasco klúðraði víti og missti af þrennunni. vísir/getty
Þótt Atlético Madrid vinni hvern leikinn á fætur öðrum þessa dagana gengur liðinu bölvanlega að skora úr vítaspyrnum.

Atlético vann 3-0 sigur á botnliði Osasuna í spænsku úrvalsdeildinni í gær. Þrátt fyrir öruggan sigur brenndi Atlético af tveimur vítaspyrnum í leiknum.

Yannick Ferreira Carrasco skoraði fyrstu tvö mörk Atlético í leiknum og fékk gullið tækifæri til að ná þrennunni þegar vítaspyrna var dæmd á Osusana á 89. mínútu.

Salvatore Sirigu varði hins vegar frá Carrasco og kom í veg fyrir að hann skoraði sitt þriðja mark.

Aðeins mínútu síðar fékk Atlético aðra vítaspyrnu. Að þessu sinni fór Thomas Partey á punktinn en Sirigu varði aftur.

Atlético hefur nú klúðrað sex vítum í röð í spænsku deildinni sem verður að teljast ansi mögnuð tölfræði. Liðið hefur alls fengið átta víti í deildinni í vetur en aðeins nýtt fjórðung þeirra.

Tvisvar sinnum í vetur hefur Atlético klikkað á tveimur vítum í sama leiknum. Það gerðist einnig í 0-2 útisigri á Valencia 2. október í fyrra.

Auk Carrasco og Thomas hafa Antoine Griezmann (2), Gabi og Fernando Torres klikkað á víti í deildinni. Torres var sá síðasti sem skoraði úr víti fyrir Atlético, í 5-0 sigri á Sporting Gijon 17. september í fyrra.

Síðustu sex vítaspyrnur Atlético Madrid í spænsku deildinni:

Thomas Partrey gegn Osasuna 15. apríl 2017, varið

Yannick Ferreira Carrasco gegn Osasuna 15. apríl 2017, varið

Fernando Torres gegn Celta Vigo 12. febrúar 2017, varið

Antoine Griezmann gegn Leganés 4. febrúar 2017, varið

Gabi gegn Valencia 2. október 2016, varið

Antoine Griezmann gegn Valencia 2. október 2016, varið




Fleiri fréttir

Sjá meira


×