Íslenski boltinn

KR valtaði yfir Grindavík og er orðið sigursælast í sögu deildabikarsins | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
KR vann Grindavík örugglega, 4-0, í úrslitaleik Lengjubikars karla í fótbolta sem fram fór í Egilshöll í dag. Óskar Örn Hauksson skoraði eitt mark fyrir vesturbæjarliðið og nýi danski framherjinn Tobias Thomsen tvö mörk.

Þetta er annað árið í röð sem KR verður deildabikarmeistari en það vann Víking auðveldlega í úrslitum í fyrra. KR er enn fremur orðið sigursælasta félagið í deildabikarnum með sjö sigra en FH kemur næst með sex.

Óskar Örn Hauksson kom KR yfir á 29. mínútu með marki eftir aukaspyrnu. Pálmi Rafn Pálmason renndi boltanum til hliðar og Óskar þrumaði boltanum í netið óverjandi fyrir Bosníumanninn Kristijan Jajalo í marki Grindavíkur.

KR-ingar voru miklu betri aðilinn allan tímann og komust í 2-0 þegar danski framherjinn Tobias Thomsen skoraði á 62. mínútu eftir mistök Grindjána í teignum. Af harðfylgi kom hann boltanum í netið.

Thomsen skoraði í átta liða úrslitunum og aftur í undanúrslitunum á móti FH þar sem hann skaut KR í úrslitin. Hann bætti svo við tveimur mörkum í dag en hann setti þriðja mark KR á 81. mínútu eftir stoðsendingu frá Óskari Erni.

Thomsen sagði í viðtali á dögunum að hann stefnir á fimmtán mörk í Pepsi-deildinni í sumar og markakóngstitilinn en miðað við byrjunina hjá honum virðist sá danski líklegur til að standa við stóru orðin.

Ástbjörn Þórðarson, unglingalandsliðsmaður fæddur árið 1999, kórónaði frábæran leik KR-liðsins með marki í uppbótartíma eftir góðan undirbúning Axels Sigurðarsonar sem er fæddur árið 1998. Ungu strákarnir að gera vel undir lokin.

Nýliðar Grindavíkur eru búnir að spila vel í Lengjubikarnum en mættu ofjörlum sínum í KR-liðinu í dag sem lítur vel út þegar tæpar tvær vikur eru í að Íslandsmótið hefjist.

Mörkin úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×